Þá hafi réttindi fólks verið brotin, það unnið allt of langa vinnudaga og fengið lítið frí.
Samkvæmt heimildum fréttastofu er einnig til rannsóknar hvort fólk hafi þurft að greiða hluta launa sinna til baka til vinnuveitenda.
Sex voru úrskurðuð í gæsluvarðhald í dag grunuð um vinnumansal. Fjöldi meintra fórnarlamba hleypur á tugum og á málið sér nokkra ára sögu. Þá var lagt hald á fjármuni við húsleit á mörgum stöðum í gær og í skoðun er að frysta eignir.
Aðgerðir lögreglu í gær voru umfangsmiklar og teygðu anga sína frá höfuðborgarsvæðinu til Suðurnesja, Suðurlands og Norðurlands. Hundrað og átta starfsmenn lögreglu og hinna ýmsu stofnana tóku þátt í aðgerðunum.
Vinnumansal til rannsóknar
Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu segist ekki geta tjáð sig um hverjir séu í haldi og um málsatvik. Hann vill ekki gefa upp hversu mörg möguleg fórnarlömbin séu.
„Við höfum ekki gefið upp nákvæma tölu en þetta voru nokkrir tugir starfsmanna, það er að segja svokallað vinnumansal,“ segir Grímur.
Varðandi það sem felst í vinnumannsali segir Grímur það þurfa að uppfylla ákveðna þætti.
„Mansal, smygl á fólki, og einhver hagnýting og undirboð á vinnumarkaði, þetta er allt nátengt. Það er ekki hægt að segja nákvæmlega á þessu stigi hvort og þá hvað var um að ræða. En okkur grunar og hafa borist upplýsingar um að fólk hafi ekki notið þeirra kjara sem því ber við störf á Íslandi.“
Þótt Grímur geti lítið tjáð sig um rannsókn málsins segir hann þó að um sé að ræða fólk frá Víetnam.
„Hvort tveggja er þetta fólk sem er íslenskir ríkisborgarar en eiga uppruna frá Víetnam, það eru þeir sem eru grunaðir í málinu, en þeir sem grunur leikur á að kunni að vera brotaþolar mansals, það er fólk frá Víetnam.“
Margar milljónir fyrir ferðina til Íslands
Heimildir fréttastofu herma að mögulega hafi Davíð nýtt sér glufu í kerfinu þannig að þeir sem hafi komið hingað til lands hafi verið á svokölluðum sérfræðingaleyfum sem Vinnumálastofnun veitir útlendingum sem koma hingað til lands til að vinna sérstök störf. Fólkið hafi síðan ekki endilega starfað við þau störf.
Þá hafi fólkið greitt háar upphæðir til að komast til landsins. Upphæðir eins og átta milljónir króna hafa verið nefndar í þessu samhengi.
Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, sagði við fréttastofu í gær að þáttur Vinnumálastofnunar í rannsókninni varða þær upplýsingar sem stofnunin býr yfir.
„Við erum fyrst og fremst að skoða þann þátt sem að okkur snýr. Hvaða fólk er það sem er með þetta atvinnuleyfi?“ sagði Unnur við fréttastofu í gær. „Við gefum út atvinnuleyfi til ríkisborgara sem koma utan evrópska efnahagssvæðisins. Við höfum framkvæmd og eftirlit með þeim lögum.“