Margir helltu hressilega í sig á barnum, enda eini staðurinn á Íslandi þar sem hægt var að kaupa bjór.
Keflavíkurflugvöllur var upphaflega lagður af Bandaríkjaher í seinni heimsstyrjöldinni og opnaður í mars 1943. Á stríðsárunum þjónaði Keflavíkurflugvöllur einungis hernaðarsinnuðum erindum. Á árunum 1951-1957 var mikil aukning á flugi um Keflavíkurflugvöll, einkum þó árið 1956. Árið 1958 varð síðan heimilt að selja farþegum áfengi og tóbak og í september það sama ár opnaði fríhafnarverslunin í lítilli flugstöðvarbyggingu. Í ársbyrjun 1970 var svo samþykkt á Alþingi breyting á lögum um tollvörugeymslur, er heimilaði uppsetningu komuverslunar við fríhöfnina og tók sú verslun til starfa í maí sama ár.
Fljótlega eftir stríð komu upp hugmyndir að reisa nýjan flugvöll sem annaðist almennt flug á meðan upprunalegi flugvöllurinn annaðist hernaðarflug og einkaflug. Þær hugmyndir fengu þó ekki hljómgrunn og flugvöllurinn hélst með óbreyttu sniði allt til ársins 1987 þegar Leifsstöð var tekin í notkun.
Meðfylgjandi ljósmyndir eru í eigu Friðrik Friðrikssonar, fyrrum flugvallarstarfsmanns og munu eflaust vekja ánægjulegar minningar hjá þeim sem lögðu land undir fót á þessum árum.
„Þær eru teknar í byrjun níunda áratugarins í gömlu stöðinni, en ég veit ekki hver tók myndirnar. Pabbi minn vann hjá Loftleiðum og Flugleiðum í yfir 40 ár á vellinum,“ segir Friðrik en hann byrjaði sjálfur að vinna í Flugstöð Leifs Eiríkssonar árið 1991, þá 17 ára gamall.






















