Franziska hóf nám við Menntaskólann í Reykjavík haustið 2020, í miðjum heimsfaraldri. Hún segir fjarnámið hafa verið erfitt og félagslífsskortinn kostað sitt fyrir andlegu heilsuna. „Ég eiginlega þoldi ekki MR því þetta var bara erfitt nám og maður hitti engan,“ segir hún.
Hún viðurkennir að auðvelt hafi verið að sofna við tölvuna í fjarnáminu. Það hafi því líka kostað hluta námsárangursins, til að mynda fall í latínu í lok fjórða bekkjar sem þó var kippt í lag með endurtektarprófi.
Franziska áréttir þó að henni finnist einkunnirnar langt frá því að vera aðalatriðið. „Mér finnst minningarnar sem ég tek með mér og fólkið sem ég kynnist miklu mikilvægari en einhver tala,“ segir hún. „Tölur skilgreina ekki gáfur fólks.“

Aflétting sóttvarnareglna reyndist Franzisku mikill léttir. „Ég var ekki viss um að ég fengi að fara á böll nokkurn tímann á menntaskólagöngunni minni,“ segir hún.
Félagslífið fékk því oft að reika framar í forgangsröðun Franzisku loks þegar færi var á. Hún sat í ritnefnd Skólablaðsins Skinfaxa sem hún nefnir að hafi alfarið verið skipuð stelpum. Að auki sýndi hún með leikhópnum Frúardegi og ráðleggur sérhverjum framhaldsskólanema að prófa að ganga í leikfélag.
Aðspurð hvort einhver atburður standi upp úr á menntaskólagöngunni segir Franziska frá hjartnæmu atviki í Cösukjallaranum, nemendasvæði skólans.
„Ég og vinkona mín vorum einar í Cösukjallara og við áttum lítið eftir af skólanum og ákváðum að kveðja Cösuna almennilega með því að spila háa tónlist og dansa uppi á borðum, það var ótrúlega gaman.“

Stytting menntaskóla hefur verið á margra vörum síðan hún var sett á. Franziska segir að lengst af hafi henni fundist þrjú ár alltof stuttur tími. „Ég var alltaf á þeirri skoðun að þrjú ár væri alltof lítið þangað til undir lokin þegar maður var bara kominn með nóg af þessu.“
Eftir menntaskólann segist Franziska ætla að taka sér árspásu og vinna annað hvort á frístundaheimili eða sem stuðningsfulltrúi. „Ég er spennt fyrir því að geta komið heim eftir langan dag og ekki þurfa að gera neitt,“ segir hún.
Því næst segir Franziska leiðina liggja í kennaranám. „Mér finnst bara svo dýrmætt að fá að móta komandi kynslóðir og fá tækifæri til þess að hafa einhver áhrif.“ Hún segir mikilvægt að fræðsla um fordóma og góða framkomu byrji snemma því slíka hluti sé erfiðara að kenna með hækkandi aldri.