Hópur foreldra fann sig knúinn til að mæta með börn sín í ráðhús Reykjavíkur í mótmælaskyni vegna ástandsins en eftir nokkur slík mótmæli steig meirihluti borgarstjórnar fram með tillögur til úrbóta.
„Ég held bara að þau hafi allan tímann vitað og gert sér fyrir því að þau væru ekki að fara að efna þessi loforð. Þetta er bara lélegt því þú ert bara að spila með líf fólks og viðurværi fólks og það náttúrulega gengur ekki.“
Biðlistarnir séu langir en þeir hafi verið það lengi. Hún segir ekki í boði fyrir kjörna fulltrúa að fyrra sig ábyrgð með því að benda á verktaka.
„Þeir sem þurfa síðan að taka ábyrgð eru leikskólastjórar og aðstoðarleikskólastjórar í Reykjavík. Þeir þurfa að svara fyrir þetta og það er ekki sanngjarnt.“
Súsanna segir að tillögur meirihlutans nái skammt enda þurfi að hugsa málið heildstætt og til framtíðar. Hún er afar ósátt við samráðsleysið.
„Þetta er okkar stétt. Þetta er okkar vinna og þetta er okkar ástríða í lífinu og þess vegna er mikilvægt að þetta sé unnið með okkur og okkur sýnd lágmarksvirðing að hafa samráð um þessi mál.“
Það sé til dæmis engin lausn að hvetja skólafólk til að starfa eitt ár í senn í leikskóla.
„Þeir tala af svo miklu þekkingarleysi um starfið. Það fylgir því rosalega mikil ábyrgð. Þetta er starf sem ekki hver sem er getur sinnt og þú þarft að hafa marga styrkleika til að sinna því sem ekki hver sem er býr yfir. Mér finnst bara ævinlega að það sé talað eins og þetta sé bara ekkert mál. Það lendir síðan á okkur leikskólakennurunum að þjálfa þetta fólk sem kemur inn og það er bara heilmikið sem fylgir því.“
Í grunnin séu laun leikskólakennara vandamálið.
„Launin eru alltaf aðalatriðið og þau eiga líka að vera það. Það vantar heilmikla virðingu þegar litið er á starf leikskólakennara og sérstaklega frá þessu fólki; borgarfulltrúum og borgarstjórn. Þetta helst alltaf í hendur; virðing og laun og launin þurfa að hækka.“