Skoðun

Nokkur orð um mikil­vægi geð­greininga

Sóley Dröfn Davíðsdóttir skrifar

Reglulega heyrast þær raddir að óeðlileg aukning hafi orðið í greiningum á geðröskunum undanfarin ár og minnstu frávik, sem áður þóttu eðlileg, orðið sjúkdómsvædd. Vissulega eru mun fleiri greindir með geðröskun en áður var. Það er þó til mikilla bóta að mínu mati. Greining á geðröskun þarf ekki að þýða að vandinn sé kominn til að vera eða að lyfjameðferð sé í öllu falli nauðsynleg. Í mörgum tilfellum er um vítahring að ræða sem má rjúfa með markvissri vinnu. Aukning í greiningum merkir heldur ekki að geðheilsa fólks sé verri en áður var, öllu heldur að við séum að gefa því nafn sem ávallt hefur verið til. Sá sem áður þótti ómannblendinn og feiminn fengi líklega félagsfælnigreiningu í dag og vonandi viðeigandi meðferð. Hann næði lengra í leik og starfi og gæti notið samvista í stað þess að kveljast alla tíð. Oft ber á sorg hjá fólki sem leitar sér seint meðferðar þegar það áttar sig á því að hefði það fengið rétta greiningu og meðferð fyrr á ævinni hefði lífshlaup þess orðið annað og farsælla.

Við leitum alltaf skýringa

Mannshugurinn þolir ekkert tómarúm og því leitum við ávallt skýringa á því sem veldur okkur hugarangri. Barn sem eirir engan veginn við lestur, tekur ekki eftir því sem fram fer í kennslustund og sætir sífelldum skömmum fyrir uppátæki, hávaða og frammíköll ákveður að það hljóti að vera svona heimskt. Farsælla hefði verið að barnið fengi að heyra að ofvirkni væri vandinn sem hrjáði það, og hefði ekkert með greind að gera. Það byði þá jafnframt upp á möguleikann á lyfjameðferð sem í sumum tilfellum er himnasending þegar vandinn heftir líf barns á margvíslegan hátt.

Móðir, sem sér ekki sólina fyrir nýfæddu barni sínu, fer skyndilega að fá þrálátar hugsanir um að hún gæti skaðað barnið. Við það verður hún mjög hrædd og streitist að alefli gegn þessum hugsunum, sem aðeins gerir illt verra. Hún forðast jafnvel að vera ein með barnið eða lætur aðra um að annast það af ótta við að hugsanirnar verði að veruleika. Móðirin dregur þá ályktun að hún hljóti að vera hræðileg móðir að hugsa svona og barninu hættuleg. Hér hefði það gagnast móðurinni að fá þá skýringu að um þráhyggju og áráttu væri að ræða sem vel mætti ná tökum á. Það sé engin hætta á að hún skaði barnið því hugsanirnar gangi gegn einlægum vilja hennar til að vernda það.

Mikilvægi réttrar greiningar

Þegar gerðar eru geðgreiningar er stuðst við greiningarkerfi geðlækna þar sem viss fjöldi einkenna þarf að hafa verið til staðar í tiltekinn tíma, valda vanlíðan og trufla líf fólks til að greining sé gerð. Vissulega má deila um fjölda einkenna sem miðað er við, hversu lengi vandinn þurfi að hafa verið til staðar eða hvaða nafni hann nefnist, enda eru þessi greiningarviðmið til stöðugrar endurskoðunar. Það einfaldar þó umfjöllun og rannsóknir á geðrænum vanda að gefa tilteknum einkennaflokkum nöfn, en þá vita fagmenn hvaða einkenna vísað er til þegar rætt er um fyrirbæri eins og félagsfælni, ofvirkni og einhverfu. Gera má rannsóknir á því hvers konar meðferð sé líklegust til að bera árangur við hverjum vanda fyrir sig og nú liggur fjöldi rannsókna fyrir á því hvers konar meðferð sé vænlegust til árangurs hverju sinni.

Eins og greiningarkerfin eru upp sett er það enginn eilífðardómur að vera greindur með geðröskun, því að um leið og fólk hættir á ná viðmiðum um fjölda einkenna og vandinn ekki lengur til trafala, telst það ekki lengur vera með umrædda geðröskun. Þá tel ég það ekki skynsamlegt að forðast að nefna geðraskanir á nafn af ótta við fordóma fólks. Það hefur einmitt dregið úr fordómum hve margir hafa stigið fram og rætt geðraskanir sínar opinskátt og þykir ekki tiltökumál lengur að vera haldinn kvíðaröskun eða þunglyndi og fara til sálfræðings. Fólk leitar sér aðstoðar fyrr en áður og er það meðal annars aukinni umræðu um geðræn málefni að þakka.

Greiningum þarf að fylgja meðferð

Þótt mörgum létti við það að fá greiningu á vanda sínum þarf fólk að eiga möguleika á gagnreyndri meðferð að lokinni greiningu, það er að segja meðferð sem sýnt hefur verið fram á með vönduðum rannsóknum að beri fullnægjandi árangur. Ein öflugasta sálfræðimeðferðin, hugræn atferlismeðferð, hefur endurtekið sannað gildi sitt í fjölmörgum rannsóknum og er nefnd sem fyrsta val í klínískum leiðbeiningum við vægum til miðlungsalvarlegum kvíða- og þunglyndiseinkennum. Aðgengi fólks að þeirri meðferð sem og annarri gagnreyndri viðtalsmeðferð, hefur verið takmarkað fram að þessu en vonandi stendur það til bóta. Líkt og heimilislæknir, sem þarf að geta vísað sjúklingum til sérfræðinga á mismunandi sviðum læknisfræðinnar, þarf sálfræðingur í heilsugæslu að geta vísað til sálfræðinga (eða annarra meðferðaraðila) með sérhæfingu í tilteknum vandamálum. Þar koma réttar greiningar enn og aftur að gagni, en þá er auðveldara að koma fólki í réttan farveg.

Höfundur er forstöðusálfræðingur við Kvíðameðferðarstöðina.




Skoðun

Skoðun

21 blár

Jón Pétur Zimsen skrifar

Sjá meira


×