Taugaeitur fannst bæði í og á líkama Alexei Navalní, rússneska stjórnarandstöðuleiðtogans, og krefst hann þess að rússnesk yfirvöld skili honum fötum sem hann var í þegar hann féll skyndilega í dá í síðasta mánuði. Fötin telur hann lykilsönnunargögn í rannsókn á hver byrlaði honum eitrið.
Navalní er nú á batavegi eftir að honum var byrlað taugaeitrið novichok í síðasta mánuði. Hann var fluttur á sjúkrahús í Berlín að kröfu aðstandenda sinna sem grunaði strax að eitrað hefði verið fyrir honum. Rússnesk yfirvöld hafa ekki talið ástæðu til að rannsaka veikindi Navalní sem sakamál.
Í bloggfærslu í dag skrifaði Navalní að novichok hafi bæði fundist „í og á“ líkama hans. Fötin sem hann var í þegar hann var færður á sjúkrahús í Síberíu í ágúst og voru tekin af honum væru því mikilvæg sönnunargögn, að því er segir í frétt AP-fréttastofunnar.
„Ég krefst þess að fötunum mínum verði pakkað varlega í plastpoka og þeim skilað til mína,“ skrifaði Navalní sem hefur verið í fararbroddi í gagnrýni á ríkisstjórn Vladímírs Pútín Rússlandsforseta og spillingu í Rússlandi undanfarin ár.
Þýsk yfirvöld komust að þeirri niðurstöðu að eitrað hafi verið fyrir Navalní með sama taugaeitrinu og rússneska fyrrverandi njósnaranum Sergei Skrípal og dóttur hans var byrlað í bænum Salisbury á Englandi árið 2018. Bresk stjórnvöld hafa sakað rússnesk stjórnvöld um að hafa staðið að tilræðinu.
Navalní gangrýndi rússnesk yfirvöld harðlega fyrir að hefja ekki sakamálarannsókn á eiturárásinni í blöggfærslunni.
„Það er ekkert sakamál í Rússland, það er „bráðabirgðaskoðun varðandi sjúkrahússinnlögn“. Það er eins og ég hafi ekki fallið í dá í flugvél heldur hafi ég hrasað í stórmarkaði og fótbrotið mig,“ skrifaði Navalní.
Rússnesk yfirvöld hafa á móti krafist þess að fá upplýsingar um hvers konar rannsóknir hafi verið gerðar á Navalní í Þýskalandi og þvertekið fyrir að stjórnvöld í Kreml hafi haft nokkuð með veikindi Navalní að gera.
Fjöldi stjórnarandstæðinga, blaðamanna og pólitískra andstæðinga Pútín forseta hefur látið lífið við voveiflegar aðstæður á um tuttugu ára langri stjórnartíð hans.