Erlent

Hætta notkun metan­hemjandi íblöndunarefnis

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Kýr í haga á Íslandi. Mynd úr safni.
Kýr í haga á Íslandi. Mynd úr safni. Vísir/Anton Brink

Danskir bændur eru margir hættir að gefa kúm sínum fóður með íblöndunarefninu Bovaer, sem á að draga úr metanlosun dýranna þegar þau ropa og prumpa. Danir byrjuðu að nota efnið í fóður í október síðastliðnum, en eftir fjölmargar tilkynningar um veikindi meðal kúa, og jafnvel andlát, hafa margir bændur frestað því að nota efnið á meðan málið er rannsakað.

Samkvæmt reglugerð danskra yfirvalda þurftu öll dönsk kúabú með fleiri en fimmtíu kýr að nota íblöndunarefnið að minnsta kosti áttatíu daga á ári, frá með 1. janúar 2025.

Skömmu eftir að danskir bændur fóru að nota efnið í fóður fóru að berast tilkynningar frá þeim um veikindi meðal kúnna, hita, niðurgang, frjósemisvandamál, minni mjólkurframleiðslu, og nokkur andlát.

Harald Olesen, danskur kúabóndi, sagði í viðtali við effektivlandbrug, að honum þætti óeðlilegt að bændur væru þvingaðir til að nota íblöndunarefnið, þar sem lítið væri vitað um áhrif þess á kýrnar til lengri tíma.

Aðrir danskir bændur hafa furðað sig á neikvæðri umræðu um Bovaer.

Ekki hefur verið sýnt fram á bein tengsl efnisins við veikindi kúna, en framleiðandi efnisins, hollenska fyrirtækið DSM-Firmenich, segir að engar sannanir liggi fyrir um að efnið valdi slíkum veikindum.

Bovaer sé notað víða annars staðar í Evrópulöndum og hafi gefið góða raun. Rannsóknir hafi sýnt fram á að með notkun efnisins minnki metanlosun kúnna verulega.

Samkvæmt umfjöllun VG í Noregi stóð einnig til að byrja nota efnið í norskum landbúnaði á næstunni, en því hefur verið frestað vegna reynslunnar í Danmörku.

Tekin hefur verið ákvörðun um að bíða niðurstaðna úr rannsóknum á veiku kúnum í Danmörku áður en haldið verður áfram með verkefnið í Noregi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×