Innlent

Segir vanda­samara að setja saman mat­seðil þegar mat­væli eru úti­lokuð

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Hólmfríður Þorgeirsdóttir er verkefnastjóri næringar hjá Embætti landlæknis segir jákvætt að auka jurtaafurðir í mataræði skólabarna.
Hólmfríður Þorgeirsdóttir er verkefnastjóri næringar hjá Embætti landlæknis segir jákvætt að auka jurtaafurðir í mataræði skólabarna. Fréttablaðið/Arnþór Birkisson
Hólmfríður Þorgeirsdóttir, verkefnisstjóri næringar hjá embætti landlæknis, segir embættið vonandi fara af stað með landskönnun á mataræði hjá 18 ára og eldri í haust og þá komi í ljós hversu hátt hlutfall landsmanna eru grænmetisætur eða vegan. Hún segir næstu skref þar á eftir vonandi vera að kanna það sama hjá yngra fólki, börnum og ungmennum.

Greint var frá því fyrr í dag að bændur væru uggandi vegna fyrirætlana borgaryfirvalda um að hætta að bjóða upp á kjöt í mötuneytum Reykjavíkurborgar. Þá hafa ýmsir tjáð sig um málið, þar á meðal Sigmar Vilhjálmsson, talsmaður, FESK, félags eggja-, svína- og kjúklingabænda.

Hann sagði í samtali við Vísi í dag að hann efaðist um að grænkerastefna væri æskileg þar sem hún uppfyllti líklegast ekki ráðleggingar landlæknis.

Hólmfríður segir, í samtali við Reykjavík síðdegis, mat þurfa að vera í samræmi við opinberar ráðleggingar og þó að aukin áhersla á afurðir úr jurtaríkinu sé góð sé vafasamt að útiloka matvæli.

„Það er alveg hægt að setja saman matseðil án kjöts og þá auka mjólk, egg og fisk á hollustuna. En eftir því sem fleiri matvæli eru útilokuð því vandasamara er þetta og meira þarf að vanda sig við að setja saman matseðil.“

„Að auka jurtaafurðir er jákvætt, bæði hvað varðar hollustu og umhverfismál og í samræmi við ráðleggingar embættisins,“ bætir Hólmfríður við.

Hún segir þó að sér lítist ekki á að hætt verði að bjóða upp á dýraafurðir alfarið, það sé ekki í samræmi við ráðleggingar landlæknis.

„Það er mælt með því að það sé fiskur tvisvar í viku og boðið upp á hreinar, fituminni mjólkurvörur, kjöt í hófi og takmarka neyslu sérstaklega á unnum kjötvörum.“

„Það er hægt að bjóða upp á mat án þess að hafa kjöt. Auðvitað þyrftu börn sem eru grænmetisætur að eiga kost á að fá slíkt fæði í skólanum.“

Hægt er að hlusta á viðtalið við Hólmfríði í Reykjavík síðdegis hér að neðan. Viðtalið hefst á mínútu 22:30.

Fyrirsögn og frétt hafa verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Soðna grænmetið endar oftast í ruslinu

Matráður í grunnskóla segir ekki hægt að leggja það á herðar skólastarfsmanna að sjá til þess að hundruð nemenda borði grænmetisrétti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×