„Frábært framlag hjá öllum leikmönnunum. Það komu allir inn af krafti og einbeittir. Við fengum góða hjálp frá þeim sem komu af bekknum,“ sagði landsliðsþjálfarinn í leikslok í Laugardalnum en Ísland vann öruggan 96-68 sigur.
„Á mismunandi köflum í leiknum stigu mismunandi leikmenn upp. Elvar átti góðan leik, Ægir kom inn af krafti og Hlynur, hvað getur maður sagt? 21 stig frá honum af bekknum í dag, það er stórkostlegt. Guði sé lof að hann hafi komið inn í liðið.“
„En í heildina var þetta frábært framlag frá upphafi til enda. Þeir áttu nokkur smá áhlaup á okkur en það var alltaf að fara að gerast. Þeir eru með gott lið með góðar skyttur. Heilt yfir einn besti leikurinn sem við höfum spilað síðustu ár.“

„Já, og það er hluti af ástæðu þess að við tökum leikhlé þegar það eru ellefu sekúndur eftir. Við vildum stilla upp kerfi til þess að ná í körfu því hvert stig skiptir máli.“
„Sviss er með lið sem getur skorað mikið og er mjög hættulegt. Við þurftum að vinna með eins miklum mun og við gátum.“
„Við náðum mjög góðu skoti í lokin en það fór ekki niður. Þetta er skot sem við viljum sjá Elvar taka og við hefðum varla getað beðið um betra skot.“
Besta niðurstaðan fyrir Ísland er að sækja sigur til Sviss og klára riðilin án þess að þurfa að fara í flókna útreikninga. Hvað þarf liðið að gera til þess að sækja sigur? „Við þurfum að gera eins og í dag, spila einbeittir í 40 mínútur.“
„Við þurfum að spila af krafti og hreyfa boltann. Við erum búnir að vinna í nokkrum hlutum í vikunni fyrir þennan leik sem munu vonandi hjálpa okkur gegn Sviss, en núna leyfum við okkur að njóta þessa sigurs og fara svo að einbeita okkur að Sviss,“ sagði Craig Pedersen, landsliðsþjálfari Íslands.