Fótbolti

Enduðu á nær­buxunum og gátu ekki flogið

Sindri Sverrisson skrifar
Leikmenn Monaco áttu erfitt með að höndla hitann og fækkuðu fötum í flugvélinni.
Leikmenn Monaco áttu erfitt með að höndla hitann og fækkuðu fötum í flugvélinni. Skjáskot/Snapchat

Leikmenn Monaco lentu í vandræðum með að ferðast af stað til Belgíu í gær, fyrir leikinn við Club Brugge í Meistaradeild Evrópu, og voru hreinlega að stikna úr hita í flugvél sem á endanum fór ekki á loft.

Til stóð að Monaco-liðið myndi ferðast í gær en eitthvað kom upp á varðandi flugvélina. Leikmenn biðu inni í vélinni, án loftkælingar í steikjandi hita, og tóku til þess ráðs að fækka fötum og sveifla bæklingum til að freista þess að kæla sig niður.

Hollendingurinn Jordan Teze sýndi frá þessu á samfélagsmiðlum og einnig hvernig leikmenn fóru svo á endanum út úr flugvélinni og stóðu fyrir utan hana á nærbuxunum.

Á endanum var sú ákvörðun tekin að fresta ferð liðsins og fljúga frekar í dag, á leikdag, en leikurinn hefst klukkan 16:45 að íslenskum tíma. Ljóst er að Paul Pogba, sem féll á lyfjaprófi haustið 2023, verður ekki með Monaco-liðinu en hann þarf tíma til að komast í betra form áður en hann byrjar að spila að nýju, eftir að hafa síðast spilað leik fyrir tveimur árum.

Adi Hutter, þjálfari Monaco, sagði við blaðamenn í gær: „Því miður gátum við ekki ferðast í dag. Ég veit ekki hvort þetta hefur einhver áhrif því við erum fagmenn og breyttum áætluninni strax. Við förum því til Brugge á morgun [í dag] sem er besta lausnin, sérstaklega fyrst við gerðum það líka fyrir leikinn við Auxerre á laugardaginn þegar við ferðuðumst á leikdag.“

„Það voru tæknilegar ástæður fyrir því að það var ekki hægt að fljúga, þar sem ekki var hægt að tryggja öryggi allra. Þess vegna ákváðum við að fresta ferðinni,“ sagði Hutter.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×