Skoðun

Eitt leyfisbréf og framhald málsins

Guðríður Arnardóttir skrifar
Nú á lokametrunum samþykkti Alþingi ný lög um menntun og ráðningu kennara þrátt fyrir ýmsa agnúa á þeim. Frumvarpið sem varð að lögum hlaut meðmæli leik- og grunnskólakennara en var hins vegar harðlega gagnrýnt af framhaldsskólakennurum sem og lykilaðilum sem hafa komið að menntun framhaldsskólakennara í háskólasamfélaginu.

Helstu áhyggjur framhaldsskólakennara lúta að því að í stað þriggja leyfisbréfa sem áður voru bundin við tiltekin skólastig verður frá og með næstu áramótum gefið út eitt leyfisbréf með starfsheitinu „kennari“ sem gildir á öllum skólastigum. Alþingi hafði síðasta orðið í málinu eins og vera ber og hlaut frumvarpið brautargengi góðs meirihluta Alþingis án mótatkvæða. Nú verður framhaldsskólasamfélagið að vinna með þessa niðurstöðu og beygja sig undir lýðræðislega niðurstöðu löggjafans.

Málið hefur reynt á stjórn KÍ þar sem ágreiningur hefur verið þar innandyra um málið frá fyrsta degi. Til bráðabirgða tók hins vegar gildi ákvæði um áframhaldandi vinnu við að slípa til helstu agnúa nýrra laga og mun mennta- og menningarmálaráðherra skipa starfshóp lykilaðila í þeirri von að á næstu mánuðum takist að mynda sátt innan KÍ um ný lög sem taka gildi 1. janúar 2020.

En sá starfshópur sem velst saman og fjallar um væntanleg lög verður að vera hæfur til þess að fjalla málefnalega, faglega og lausnamiðað um framgang málsins. Verði sömu leikmenn inni á þeim velli er ekki að vænta sáttar í málinu. Undirrituð mun stíga til hliðar í þeirri vinnu og fela varaformanni Félags framhaldsskólakennara að halda um taumana fyrir hönd framhaldsskólakennara, með þeirri áskorun að stjórnir annarra aðildarfélaga KÍ geri slíkt hið sama og skipi til verka fólk sem kemur ferskt og ósárt að samningaborðinu.

Höfundur er formaður Félags framhaldsskólakennara.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×