Skoðun

Iceland Airwaves – hjart­sláttur ís­lenskrar tón­listar

Einar Bárðarson skrifar

Þessa vikuna fyllist miðborg Reykjavíkur af tónlist, orku og sköpun þegar tónlistarhátíðin Iceland Airwaves hefst enn á ný. Hátíðin hefur í rúma tvo áratugi verið einn mikilvægasti vettvangur íslenskrar tónlistar — bifröst milli íslenskrar tónlistarsenu og goðheima nútímans.

Á Airwaves fá nýir og upprennandi listamenn tækifæri til að stíga á svið við hlið reyndari listamanna, kynnast fagfólki úr heiminum og kynna verk sín fyrir alþjóðlegum áhorfendum. Fjölmargir hafa tekið sín fyrstu skref á þessari hátíð og notið árangurs langt út fyrir landsteinana. Fyrir marga hefur Iceland Airwaves verið upphafið að ferli sem breytti lífi þeirra.

Þess vegna skiptir hátíðin máli — ekki aðeins sem tónlistar- og gleðihátíð, heldur sem einn öflugasti innviður íslenskrar menningar og skapandi efnahagslífs. Hún tengir fólk, kveikir vonir og skapar verðmæti.

Hún er í senn vettvangur, brú og tákn um þann kraft sem býr í íslenskri tónlist.

Fyrir fáum árum stóð hátíðin á illa. Þá steig SENA Live fram og bjargaði Iceland Airwaves frá glötun. Rekstur hennar hafði ratað í ógöngur, og ljóst var að grípa þyrfti til breytinga. SENA Live bauðst til og tók við keflinu með ábyrgð, sýn og kjark — og tryggði að hátíðin héldi áfram að lifa og þróast.

Það hefur reynst mikið þrekvirki af þeirra hálfu – og alls ekki sjálfgefið.

Mig langar með þessum línum að þakka SENU Live fyrir eljuna og baráttuna fyrir hönd íslenskrar tónlistar. Það er mitt mat að hátíðin sé nú í höndum traustra og faglegra aðila sem njóta virðingar bæði hér heima og erlendis. SENA Live er stærsti tónleikahaldari í sögu Íslands og stendur með reisn fyrir íslenska tónlist og menningu. Ég óska þeim, og öllu tónlistarfólkinu sem kemur fram þessa viku í Reykjavík, frábærrar uppskeru.

Gleðilega og gefandi hátíð – sjáumst í borginni um helgina.

Höfundur er formaður stjórnar Tónlistarmiðstöðvar Íslands.




Skoðun

Skoðun

3003

Elliði Vignisson skrifar

Sjá meira


×