Erlent

Olíuverð hækkar vegna deilu Bandaríkjanna og Íran

Samúel Karl Ólason skrifar
Ríkisstjórn Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, lýsti því nýverið yfir að allar undanþágur vegna viðskiptaþvinganna Bandaríkjanna gagnvart Íran yrðu felldar niður þann fyrsta maí.
Ríkisstjórn Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, lýsti því nýverið yfir að allar undanþágur vegna viðskiptaþvinganna Bandaríkjanna gagnvart Íran yrðu felldar niður þann fyrsta maí. Getty/Kaveh Kazemi
Yfirvöld Íran hótuðu á dögunum að loka fyrir skipaumferð um Hormuzsund, innganginn að Persaflóa. Slík lokun hefði miklar afleiðingar þar sem að um fimmtungur allrar olíu í heiminum fer um sundið. Ríkisstjórn Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, lýsti því nýverið yfir að allar undanþágur vegna viðskiptaþvinganna Bandaríkjanna gagnvart Íran yrðu felldar niður þann fyrsta maí.

Það felur í sér að þau ríki sem kaupa olíu af Íran þurfa að hætta því eða sæta refsiaðgerðum. Þau ríki sem kaupa mesta olíu af Íran eru Kína, Suður-Kóreu, Indland, Japan og Tyrkland. OPEC-ríkin segjast auðveldlega geta fyllt upp í það gat á olíuframleiðslu sem stöðvun olíusölu frá Íran myndi leiða til.

Olíuverð hefur aukist til muna á undanförnum dögum vegna deilunnar. 

Bandaríkjastjórn lagði viðskiptaþvinganir aftur á Íran í fyrra eftir að Donald Trump forseti rifti sagði sig frá kjarnorkusamningnum sem heimsveldin gerðu við landið árið 2015. Þvingunum þessum er ætlað að draga verulega úr tekjum Íran. Yfirvöld Bandaríkjanna segja Írani hafa notað fjármuni sína frá olíusölu til þess að grafa undan öðrum ríkjum Mið-Austurlanda og styðja við bakið á hryðjuverkasamtökum.

Sérfræðingar segja þó ólíklegt að Íran muni loka Hormuzsundi, sérstaklega þar sem því hafi verið hótað ítrekað á undanförnum árum.

Bandaríkjastjórn sendi þó út yfirlýsingu í dag þar sem yfirvöld Íran voru hvött til að láta af hótunum sínum og virða frjáls flæði orku og vara og virða frjálsar siglingar.

Áður en þessar nýjustu aðgerðir Bandaríkjanna voru tilkynntar á mánudaginn hafði Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáð því að efnahagur Íran myndi dragast saman um sex prósent á þessu ári. Samkvæmt BBC hafa íbúar Íran fundið fyrir þvingunum Bandaríkjanna og hefur verðbólga aukist til muna þar í landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×