Í umfjöllun breska ríkisútvarpsins segir að upptökur sýni fund Elnurs Soltanov, framkvæmdastjóra COP29-teymis Aserbaídsjans, og flugumanns sem þóttist vera fulltrúi fjárfestingafélags frá Hong Kong.
Flugumaðurinn hafi komið fundinum á til þess að ræða mögulega styrkveitingu fjárfestingafélagsins til COP29 en umræðan hafi fljótlega snúist að fjárfestingartækifærum í Socar, olíu- og gasfyrirtækis Aserbaídsjans. Ásamt því að leiða skipulag COP29 er Soltanov varaorkumálaráðherra landsins og situr í stjórn Socar.
BBC hefur eftir Christiönu Figueres, fyrrverandi yfirmanni stofnunar Sameinuðu þjóðanna sem sér um loftslagsráðstefnur samtakanna, að hún sé í áfalli yfir því að nokkur tengdur COP-ráðstefnu myndi nýta sér stöðu sína til að gera samninga um jarðefnaeldsneyti. Það gengi gegn tilgangi ráðstefnanna og væru svik við ferlið.