Erlent

Harris búin að hringja í Trump og undir­býr á­varp

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Harris fékk einungis 224 kjörmenn af þeim 270 sem þarf til að vinna kosningarnar. 
Harris fékk einungis 224 kjörmenn af þeim 270 sem þarf til að vinna kosningarnar.  Vísir/Getty

Kamala Harris forsetaframbjóðandi demókrata, sem laut í lægra haldi gegn Donald Trump frambjóðanda repúblikana, er búin að ræða við þann síðarnefnda og játa ósigur. Hún sleppti því að ávarpa stuðningsmenn sína í nótt en hyggst gera það síðar í kvöld. 

Frá þessu greinir aðstoðarmaður innan kosningateymis Harris. Símtalið markar ákveðin endalok á harða, og á köflum heiftarlega kosningabaráttu, þeirra tveggja. Hér að neðan má fylgjast með beinni útsendingu NBC fréttaveitunnar, þar sem Harris mun ávarpa stuðningsmenn sína og aðra kjósendur: 

Aðstoðarmaður Harris ítrekaði við fjölmiðla mikilvægi þess að valdaskiptin sem framundan eru verði friðsamleg og að til valda komist forseti sem verði forseti allra Bandaríkjamanna. 

Sem stendur hefur Donald Trump tryggt sér 292 kjörmenn af þeim 270 sem þarf til að hljóta kjör sem forseti. Nú síðast varð ljóst að hann hefði sigrað í Michigan-ríki, sem Joe Biden hafði sigrað fyrir fjórum árum síðan. 

Nú stefnir í að Trump verði fyrsti frambjóðandi repúblikana í tuttugu ár til þess að vinna vinsældarkosninguna, þ.e. hljóta fleiri atkvæði en frambjóðandi demókrata. Sá síðasti sem gerði það úr röðum repúblikana var George W. Bush árið 2004. 

Búist var við því að Harris myndi hljóta fleiri atkvæði þrátt fyrir tap, líkt og Hillary Clinton gerði árið 2016, en sem stendur er Trump með 71.930.743 atkvæði á landsvísu gegn 67.086.484 atkvæðum Harris.  

Búist er við því að Harris ávarpi stuðningsmenn klukkan níu í kvöld að íslenskum tíma. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×