Það er ekki langt síðan menn fóru að greina ADHD - eða ofvirkni með athyglisbrest - hjá fullorðnum, enda lengst af litið á hann sem barnasjúkdóm. En í dag er talið að að minnsta kosti helmingur þeirra sem hafa ADHD sem börn, hafi sjúkdóminn líka á fullorðinsárum.
Samkvæmt tölum frá Landlæknisembættinu fengu ríflega þúsund fullorðnir ávísað methylfenidat lyfjum, á borð við Rítalín og Concerta, árið 2006. Sá fjöldi hefur síðan vaxið hratt og meira en þrefaldast á aðeins níu árum. Viðsnúningurinn verður á árinu 2012 en það ár fá í fyrsta skipti fleiri fullorðnir en börn ávísað ofvirknilyfjum.

„Mín skoðun er sú, og það eru náttúrulega margir á sama máli, að þetta sé í rauninni ein mesta heilsuógn og einn dýrasti sjúkdómur mannkynsins, og sérstaklega á Vesturlöndum,” segir Haraldur.
Hann segir ADHD eiga stóran þátt í ýmsu sem verið sé að glíma við í nútímaþjóðfélagi. Vandamálum eins og fíkn, glæpum, námserfiðleikum, fjölskylduvandræðum, slysum og vinnutapi vegna veikinda. Ómeðhöndlað ADHD kosti þjóðfélagið mikið. Haraldur tekur hins vegar fram að mikill mannauður búi í þessum hópi fólks, svo fremi að farið sé í átak til að meðhöndla sjúkdóminn.
„Það kostar gríðarlega peninga að koma því af stað en á endanum mun það líklega spara þjóðfélaginu gríðarlega peninga,” segir hann.
Nýr heimildaþáttur - Örir Íslendingar - verður á dagskrá Stöðvar 2 kl. 19:25 í kvöld, þar sem Lóa Pind fylgist með fjórum fullorðnum sem hafa nýlega verið greindir með ADHD.