„Það var alveg ljóst að Leiknismenn voru tilbúnir. Þjálfurum liðsins tókst að stilla spennutigið rétt og þeir mæta og jarða Valsmenn strax í byrjun.“
Þetta sagði Hjörvar Hafliðason, sérfræðingur Pepsi-markanna, um 3-0 sigur nýliða Leiknis á Val í fyrstu umferð Pepsi-deildar karla í fótbolta.
Leiknismenn komust snemma í 2-0 og Valsmenn sáu ekki til sólar eftir það. Fyrirliði Vals, Haukur Páll Sigurðsson, gaf annað markið þegar hann reyndi að hreinsa boltann úr teignum með bakfallsspyrnu.
„Aðeins Haukur Páll getur útskýrt af hverju hann er að þessu bulli. Ég trúi ekki að Haukur Páll hafi verið heill í þessum leik. Hann var ólíkur sjálfum sér frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu,“ sagði Hjörvar
Hjörvari var ekki skemmt yfir varnarleik Valsmanna. Leiknir gat auðveldlega komist í 3-0 undir lok fyrri hálfleiks þegar Orri Sigurður Ómarsson opnaði allt upp á gátt en Elvari Páli Sigurðssyni brást bogalistin.
„Það var við hæfi að Óli Jóh var með 10/11-húfu, opið allan sólarhringinn, því þannig var varnarleikur Vals,“ sagði Hjörvar Hafliðason.
Umræðuna alla má sjá í spilaranum hér að ofan.
