Erlent

Hótar að setja hundrað prósenta toll á Kanada

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. EPA

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur hótað að setja hundrað prósenta toll á vörur frá Kanada ef forsætisráðherra Kanada undirritar viðskiptasamning við Kína.

„Ef að Kanada gerir samning við Kína verður þegar í stað lagður 100% tollur á allar kanadískar vörur og afurðir sem koma til Bandaríkjanna,“ skrifaði Trump á Truth Social, samfélagsmiðilinn sinn.

Stutt er síðan Mark Carney, forsætisráðherra Kanada, og Xi Jinping, forseti Kína, funduðu og tilkynntu að þeir hefðu náð saman um viðskiptasamning milli ríkjanna tveggja. Samkvæmt BBC sagði Trump þá að samningurinn væri „góður hlutur“ en virðist nú hafa skipt um skoðun.

Það gerist í kjölfar eldræðu sem Carney flutti á efnahagsráðstefnunni í Davos í vikunni. Þar varaði hann við því að heimurinn væri staddur í miðjum umbrotum þar sem stórveldi hafi vopnavætt viðskipti og tolla og misnoti efnahagslega innviði sem kúgunartæki.

Í færslu Trumps vísar hann einnig í Carney sem ríkisstjóra (e. governor) en ekki forsætisráðherra. Þegar hann tók við völdum sem forseti fyrir ári síðan ítrekaði hann vilja sinn um að Kanada yrði 51. ríki Bandaríkjanna.

„Ef Carney ríkisstjóri heldur að hann geti gert Kanada að „losunarhöfn“ fyrir Kína til að senda vörur og afurðir til Bandaríkjanna, þá skjátlast honum. Kína mun gleypa Kanada með húð og hári, gjörsamlega éta það, þar með talið eyðileggingu á fyrirtækjum þeirra, félagsgerð og almennum lífsháttum,“ skrifar Trump.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×