Körfubolti

NBA fé­lag með mínútuþögn til minningar um „ó­lýsan­legan harm­leik“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Renee Good var skotin til bana í Minneapolis af bandarískum innflytjendafulltrúa.
Renee Good var skotin til bana í Minneapolis af bandarískum innflytjendafulltrúa. Getty/Scott Olson

NBA-félagið Minnesota Timberwolves hélt mínútuþögn í nótt til minningar um Renee Good, sem var skotin til bana af bandarískum innflytjendafulltrúa. Þetta gerði félagið fyrir leikinn í nótt gegn Cleveland Cavaliers í NBA-deildinni í körfubolta.

Hin 37 ára gamla Good var drepin á miðvikudagsmorgun um sex kílómetrum frá Target Center, sem er heimavöllur Timberwolves.

„Eins og við öll vitum hefur samfélag okkar orðið fyrir enn einum ólýsanlegum harmleik,“ sagði Chris Finch, þjálfari Minnesota Timberwolves.

„Við viljum bara votta fjölskyldum og ástvinum og öllum þeim sem urðu fyrir miklum áhrifum af því sem gerðist samúð okkar og innilegar óskir, bænir og hugsanir,“ sagði Finch.

Minnesota vann þarna sinn fjórða sigur í röð þar sem Julius Randle skoraði 28 stig, tók 11 fráköst og gaf átta stoðsendingar.

Timberwolves eru í fjórða sæti í Vesturdeildinni en Cavaliers, sem hafa tapað tveimur af síðustu þremur leikjum sínum, eru í áttunda sæti í Austurdeildinni.

Þúsundsti sigurinn hjá Carlisle

Indiana Pacers vann 114-112 sigur á Charlotte Hornets og batt þar með enda á þrettán leikja taphrinu og færði Rick Carlisle þjálfara sinn þúsundasta sigur.

Carlisle hefur þjálfað Detroit Pistons, Dallas Mavericks og hefur verið tvívegis hjá Pacers á 25 ára ferli sínum.

Hinn 66 ára gamli Carlisle er aðeins ellefti þjálfarinn til að ná þessum áfanga og sá fyrsti til að bætast í hópinn síðan Doc Rivers árið 2021.

Indiana Pacers er áfram neðst í Austurdeildinni en Hornets eru í 12. sæti.

Í Salt Lake City stöðvaði Utah Jazz fimm leikja taphrinu með 116-114 sigri gegn Dallas Mavericks.

Frestuðu leiknum eftir upphitun

Leik Chicago Bulls og Miami Heat var frestað vegna raka á vellinum í Chicago.

NHL-leikur fór fram í United Center á fimmtudag og eftir óvenjuhlýjan og rigningarsaman dag í Chicago var völlurinn ekki leikhæfur 24 klukkustundum síðar.

Leikmenn beggja liða fóru í gegnum hefðbundna upphitun fyrir leik en leikurinn var blásinn af eftir níutíu mínútur í samráði við skrifstofu NBA-deildarinnar, dómara og þjálfara beggja liða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×