Menning

Víkingur Heiðar hlýtur tónlistarverðlaun Norður­landa­ráðs

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Víkingur Heiðar hefur tvisvar áður verið tilnefndur til Norðurlandaráðs og hlýtur þau nú í þriðju atrennu.
Víkingur Heiðar hefur tvisvar áður verið tilnefndur til Norðurlandaráðs og hlýtur þau nú í þriðju atrennu. Ari Magg

Píanóleikarinn Víkingur Heiðar Ólafsson hlýtur tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs í ár. Færeyingar fara heim með verðlaun í bæði kvikmynda- og bókmenntaflokki.

Norðurlandaráð hefur opinberað hverjir hljóta verðlaun ráðsins í ár á sviði bókmennta, kvikmynda, tónlistar, barna- og unglingabókmennta og umhverfis. 

Verðlaunaféð fyrir hver verðlaun eru 300 þúsund danskar krónur (tæplega 5,7 milljónir króna) og verða þau veitt í tengslum við Norðurlandaráðsþing í Stokkhólmi hinn 28. október næstkomandi.

Tvenna hjá Færeyingum

Færeyingar eru sennilega lukkulegastir með verðlaunin í ár en bæði bókmenntaverðlaunin og kvikmyndaverðlaunin fara til Færeyinga. Íslendingar, Svíar og Danir hljóta ein verðlaun hver.

Kvikmyndin Seinasta paradís á jørð hlýtur kvikmyndaverðlaunin en hún er fyrsta færeyska myndin sem er tilnefnd til verðlaunanna. Myndin er dönsk-færeysk framleiðsla eftir leikstjórann og handritshöfundinn Sakaris Stórá, handritshöfundana Mads Stegger og Tommy Oksen og framleiðandann Jón Hammer.

Bókmenntaverðlaunin fær Vónbjørt Vang fyrir ljóðasafnið Svørt orkidé en 29 ár eru síðan færeyskur rithöfundur hlaut verðlaunin síðast, 1986.

Sænsk barnabók, íslenskur píanóleikari og grænir nágrannar

Hin sænska Sara Lundberg hlýtur barna- og unglingabókaverðlaunin fyrir myndabókina Ingen utom jag. 

Íslenski píanóleikarinn Víkingur Heiðar Ólafsson hlýtur tónlistarverðlaunin en hann hefur í tvígang áður verið tilnefndur til þeirra verðlauna. 

Víkingur Heiðar hefur hlotið fjölda verðlauna fyrir píanóleik sinn.Vísir/Getty

Í rökstuðningi dómnefndar segir að Víkingur hafi „fangað ímyndunarafl bæði almennings og gagnrýnenda með djúpri tónlistargáfu sinni“. Ferill hans hafi legið stöðugt upp á við að undanförnu og vegsemd hans aukist með hverju árinu sem líður. Hann sé „einn virtasti starfandi píanóleikari okkar tíma og frægur fyrir nýstárlegar túlkanir, heillandi sviðsframkomu og einstaka getu til að breiða sígilda tónlist út til víðari markhóps“.

Þema umhverfisverðlaunanna í ár er „þáttur borgarasamfélagsins í umhverfismálum“ og er þau veitt verkefninu Grønne Nabofællesskaber frá Danmörku. Grænu nágrannasamfélögin ganga út á byggja nærsamfélög þar sem fólk ræktar tengsl við nágranna gegnum starfsemi sem styður sjálfbæran lífsstíl.

Verðlaunahafarnir munu taka við verðalaunagripnum Nordlys við hátíðlega athöfn í sænska þinginu 28. október klukkan 18 að sænskum tíma, í tengslum við þing Norðurlandaráðs.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.