Innlent

Fjórir hand­teknir í að­gerðunum í Gnoðavogi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Þrír sérsveitarbílar mættu á vettvang í Gnoðarvogi að sögn sjónarvotta.
Þrír sérsveitarbílar mættu á vettvang í Gnoðarvogi að sögn sjónarvotta. Aðsend

Fjórir voru handteknir í tengslum við aðgerðir lögreglu í Gnoðavogi í gærkvöldi. Þremur var sleppt stuttu seinna en skýrsla tekin af einum, sem var síðan látinn laus.

Lagt var hald á töluvert magn af óþekktu efni.

Frá þessu er greint í yfirliti lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu yfir verkefni næturinnar en Vísir greindi frá aðgerðunum í Gnoðavogi í gærkvöldi.

Tveir voru handteknir í ótengdu máli eftir að hafa freistað þess að flýja lögreglu á bifhjólum. Þá var meintur þjófur handtekinn í póstnúmerinu 104, eftir að hafa lent í átökum við öryggisvörð.

Tveir voru handteknir grunaðir um húsbrot í miðborginni, eftir að þeir höfðu komið sér fyrir í stigagangi. Þá var maður handtekinn í annarlegu ástandi en sá neitaði að gefa upp hver hann væri og streittist verulega á móti lögreglu.

Einn var handtekinn í póstnúmerinu 110 eftir að þess var óskað að hann yrði fjarlægður af heimili. Var viðkomandi í annarlegu ástandi og neitaði að fara að fyrirmælum lögreglu.

Tilkynnt var um innbrot í geymslur í sama hverfi og þá var brotist inn í bílageymslu í 113.

Einum var vísað út af ölhúsi í Kópavogi eftir að hann neitaði að yfirgefa staðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×