Innlent

Á­standið á Gasa: 42 pró­sent telja að Ís­lendingar ættu að beita sér meira

Atli Ísleifsson skrifar
Samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðisráðuneyti Palestínumanna hafa nú rúmlega 61 þúsund manns látið lífið frá upphafi stríðsreksturs Ísraelsmanna sem hófst í kjölfar hryðjuverkaárásar Hamas-liða í október 2023.
Samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðisráðuneyti Palestínumanna hafa nú rúmlega 61 þúsund manns látið lífið frá upphafi stríðsreksturs Ísraelsmanna sem hófst í kjölfar hryðjuverkaárásar Hamas-liða í október 2023. EPA

Nær 42 prósent þeirra sem taka afstöðu telja að íslensk stjórnvöld ættu að beita sér meira þegar kemur að ástandinu á Gasasvæðinu. Ríflega 35 prósent telja þau vera að beita sér nægilega og tæplega 23 prósent telja að þau ættu að beita sér minna. Einn af hverjum tíu tók ekki afstöðu.

Þetta er niðurstaða Þjóðarpúls Gallup Þar sem spurt var hver af eftirfarandi fullyrðingum væri næst skoðun viðkomandi:

  • Ég tel að íslensk stjórnvöld ættu að beita sér meira þegar kemur að ástandinu á Gaza svæðinu
  • Ég tel að íslensk stjórnvöld séu að beita sér nægilega þegar kemur að ástandinu á Gaza svæðinu 
  • Ég tel að íslensk stjórnvöld ættu að beita sér minna þegar kemur að ástandinu á Gaza svæðinu

Í tilkynningu frá Gallup segir að fólk undir fimmtugu telji frekar en eldra fólk að íslensk stjórnvöld ættu að beita sér meira þegar kemur að ástandinu á Gasasvæðinu á meðan fólk yfir fimmtugu telji frekar að þau séu að beita sér nægilega mikið. 

„Íbúar höfuðborgarsvæðisins telja frekar en íbúar landsbyggðarinnar að íslensk stjórnvöld ættu að beita sér meira á meðan íbúar landsbyggðarinnar telja frekar en höfuðborgarbúar að þau ættu að beita sér minna. Fólk með háskólapróf er líklegra en fólk með minni menntun til að telja að íslensk stjórnvöld ættu að beita sér meira varðandi ástandið á Gaza. 

Þau sem kysu annan flokk en þá sem eiga sæti á þingi ef kosið yrði til Alþingis í dag telja helst að íslensk stjórnvöld ættu að beita sér meira varðandi málefni Gaza á meðan þau sem kysu Miðflokkinn telja helst að þau ættu að beita sér minna. Meirihluti þeirra sem styðja ríkisstjórnina telur að stjórnvöld ættu að beita sér meira, eða 52% á móti einungis 9% sem telja að þau ættu að beita sér minna. Þessu er öfugt farið hjá þeim sem styðja ekki ríkisstjórnina en 47% þeirra telja að stjórnvöld ættu að beita sér minna á móti 22% þeirra sem telja að þau ættu að beita sér meira,“ segir í tilkynningunni.

Gallup

Um var að ræða netkönnun Gallup sem gerð var dagana 30. júlí til 10. ágúst 2025. Heildarúrtaksstærð var 1.745 og þátttökuhlutfall var 45,8 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×