Innlent

Ámálaða merkið þótti ekki nógu flott

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Skiltinu var komið upp í síðasta mánuði.
Skiltinu var komið upp í síðasta mánuði. Vilhelm/Anton Brink

Merki Landsbankans sem málað var á stuðlaberg höfuðstöðva bankans við Reykjastræti þegar þær opnuðu 2023 hefur verið fjarlægt. Skilti með sama merki hefur verið komið upp í staðinn. 

„Okkur fannst málaða merkið ekki koma nægilega vel út og því ákváðum við að láta hreinsa málninguna af og setja upp skilti með merki bankans,“ segir í skriflegu svari Rúnars Pálmasonar upplýsingafulltrúa Landsbankans við fyrirspurn fréttastofu. 

Málningin var hreinsuð af og nýtt skilti sett upp í júlí. Rúnar vekur athygli á að merkið hafi verið málað á með umhverfisvænni málningu og því auðvelt mál að hreinsa hana af. 

Landsbankinn færði stóran hluta starfsemi sinnar í nýtt húsnæði við Reykjastræti 6 haustið 2023. Húsið er 16.500 fermetrar en í því starfar utanríkisráðuneytið einnig. 

Byggingin er áberandi hluti af miðborginni og einkennandi stuðlaberg prýðir veggi hennar. Það vakti athygli og jafnvel gagnrýni þegar Landsbankamerkið var málað á bert stuðlabergið um það leyti sem starfsemi hófst í bankanum. 

Svona leit húsið út áður en framkvæmdum lauk. Vísir/Vilhelm



Fleiri fréttir

Sjá meira


×