Erlent

„Góðu fréttirnar eru að það sem hann segir skiptir engu máli“

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Donald Trump segir að Macron sé fínn gaur en það sem hann hafi að segja um sjálfstætt ríki Palestínu skipti engu máli.
Donald Trump segir að Macron sé fínn gaur en það sem hann hafi að segja um sjálfstætt ríki Palestínu skipti engu máli. AP

Donald Trump Bandaríkjaforseti segir að ákvörðun Frakklands að viðurkenna Palestínu sem sjálfstætt ríki skipti engu máli. Það skipti í sjálfu sér engu máli það sem Macron eða Frakkland segi um málið.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti greindi frá því í samfélagsmiðlafærslu í gær að Frakkland viðurkenndi Palestínu sem sjálfstætt ríki, og sagðist ætla lýsa því opinberlega yfir á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í september.

Trump var inntur viðbragða við þessu þegar hann tók við nokkrum spurningum fréttamanna áður en hann steig um borð í forsetaþotuna fyrr í dag og hélt til Skotlands.

„Hann er öðruvísi gaur. Hann er allt í lagi, hann er liðsmaður. En hér eru góðu fréttirnar, það sem hann segir skiptir engu máli,“ sagði Trump.

„Hann gaf út yfirlýsingu, Macron. Það er engin vigt í þeirri yfirlýsingu, hann er mjög góður gaur, Macron, ég kann vel við hann, en þessi yfirlýsing skiptir engu máli,“ sagði Trump.

Marco Rubio, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, brást ókvæða við ákvörðun Frakklands í gær með harðorðri færslu á samfélagsmiðlum.

„Bandaríkin hafna algjörlega fyrirætlunum Macrons að viðurkenna palestínskt ríki á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.“

„Þessi kærulausa ákvörðun er vatn á myllu áróðursvélar Hamas og tefur fyrir friðarviðræðum. Þetta er kjaftshögg fyrir fórnarlömb hryðjuverkaárásarinnar 7. október 2023,“ sagði Marco Rubio.

Frakkland hefur nú bæst í hóp tæplega 150 aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna sem hafa viðurkennt Palestínu sem sjálfstætt ríki, en aðildarríkin telja 193. Ísland er meðal þeirra sem viðurkenna Palestínu.

Frakkland er valdamesta ríki Evrópu sem hefur viðurkennt Palestínu, en ríki eins og Bandaríkin, Þýskaland, og Ísrael eru mjög andvíg slíkri viðurkenningu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×