Erlent

Fær­eyingar rýmka veru­lega lög um þungunarrof

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Þórshöfn í Færeyjum.
Þórshöfn í Færeyjum. Getty

Þingmenn í Færeyjum hafa samþykkt að rýmka lög um þungunarrof, þannig að það verði nú heimilt fram að þrettándu viku meðgöngu. Það hefur hingað til verið bannað, nema þegar um er að ræða þungun í kjölfar nauðgunar eða sifjaspells, eða þegar líf móðurinnar eða heilbrigði fóstursins hefur verið talið í hættu.

„Þetta er sannarlega sögulegur dagur í Færeyjum,“ sagði Ingilín Didriksen Strømm, einn flutningsmanna frumvarpsins, eftir að það var samþykkt. Athygli vekur að afar naumt var á milli en sautján voru fylgjandi og sextán á móti.

Nýju lögin taka gildi 1. júlí 2026.

Óhætt er að segja að um stórt skref sé að ræða en löggjöf Færeyja um þungunarrof hefur verið ein sú strangasta í Evrópu. Þar er einnig kveðið á um að konur megi gangast undir þungunarrof ef þær eru taldar óhæfar mæður, en það þurfa læknir og nefnd að staðfesta. Eins og sakir standa eiga bæði konan og læknirinn yfir höfði sér fangelsi ef skilyrðum er ekki fullnægt.

Þeir sem töluðu gegn frumvarpinu sögðu það meðal annars ganga gegn rétti fóstursins til lífs. Erhard Joensen, sem greiddi atkvæði gegn frumvarpinu, sagðist gera ráð fyrir að tilraunir yrðu gerðar til að afnema lögin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×