Erlent

Ferðabannið út­víkkað frá tólf ríkjum í yfir þrjá­tíu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Kristi Noem er heimavarnaráðherra Bandaríkjanna.
Kristi Noem er heimavarnaráðherra Bandaríkjanna. Getty/Washington Post/Sarah L. Voisin

Bandaríkjastjórn hefur í hyggju að fjölga þeim ríkjum sem sæta ferðabanni til Bandaríkjanna í yfir 30. Þetta staðfestir heimavarnaráðherrann Kristi Noem.

Noem var spurð að því á Fox News hvort það væri rétt að ríkjunum yrði fjölgað úr tólf í 32. Ráðherrann sagðist ekki geta staðfest fjöldann en ríkin á bannlistanum yrðu sannarlega fleiri en 30.

Donald Trump Bandaríkjaforseti væri nú að meta hvaða lönd færu á listann.

„Ef það er ekki stöðug stjórn þar, ef þetta er ekki ríki sem er sjálfbært og getur upplýst okkur um það hvaða einstaklingar þetta eru og aðstoðað okkur við að votta þá... af hverju ættum við þá að heimila einstaklingum frá því ríki að koma hingað til Bandaríkjanna?“ spurði Noem.

Reuters hefur greint frá því að allt að 36 ríki verði á bannlistanum.

Stjórnvöld vestanhafs hafa þegar gripið til aðgerða sem gera innflytjendum afar erfitt fyrir að fá dvalarleyfi og ríkisborgararétt. Nokkrum dögum eftir að ríkisborgari frá Afganistan, sem fékk dvalarleyfi fyrr á árinu, skaut tvo þjóðvarðaliða í Washington í síðustu viku, hét forsetinn því að stöðva allan aðflutning fólks frá „þriðja heims ríkjum“.

Áður hafði hann fyrirskipað endurskoðun umsókna einstaklinga frá nítján ríkjum, sem þýðir að mikill fjöldi fólks sem hafði þegar farið í gegnum umsóknarferlið og var á lokametrunum er nú í algjörr óvissu um framhaldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×