Innlent

Engu mátti muna á að al­var­legur á­rekstur yrði á þjóð­veginum

Jón Þór Stefánsson skrifar
Skjáskot úr myndbandinu sem sýnir þegar bíllinn tekur fram úr þar sem er óbrotin lína.
Skjáskot úr myndbandinu sem sýnir þegar bíllinn tekur fram úr þar sem er óbrotin lína.

Jepplingur tók fram úr öðrum bíl við Holtavörðuheiði um hádegisleytið í gær þar sem er óbrotin lína á veginum. Litlu munaði á að jepplingurinn endaði á bíl sem ók úr gagnstæðri átt. Rétt áður en bílarnir lentu saman tókst ökumanni jepplingsins að koma ökutæki sínu aftur á réttan vegarhelming.

Myndband úr öryggismyndavél bílsins sem tekið var fram úr sýnir þetta atvik. Ökumaður þess bíls telur að sekúndubroti hafi munað á því að banaslys hefði orðið.

Arnar Geir Magnússon, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Vesturlandi, hvetur fólk til að sýna þolinmæði við aksturinn og hugsa fram á veginn.

„Varðandi svona athæfi hvetjum við fólk til að sýna þolinmæði ef það myndast raðir. Við eigum að taka fram úr á þeim köflum sem bjóða upp á það, ef framúrakstur er nauðsynlegur,“ segir Arnar í samtali við fréttastofu.

Áhættan sem sé tekin með glannalegum framúrakstri sé ekki þeirra nokkurra mínútna virði sem gætu sparast fyrir vikið.

„Yfirleitt sparast ekki mikill tími á því að taka fram úr. Oftast, yfir sumartímann, er umferð á þjóðvegi það þétt að þú færð ekki mikinn tíma á því að fara fram úr einu ökutæki. Þá lendir þú á eftir næsta bíl,“ segir hann.

„Það sem skiptir máli er þolinmæði og að fólk hugsi fram á veginn.“

Að sögn Arnars hefur orðið aukning í hraðakstri í umdæmi lögreglunnar á Vesturlandi milli ára. Fleiri ökumenn hafi verið kærðir en í fyrra. Hann bendir þó að viðvera á þjóðveginum sé meiri og markvissari viðvera en var í fyrra, sem gæti útskýrt aukninguna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×