Íslenski boltinn

Henríetta lánuð til Þór/KA

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Henríetta fagnar hér marki sínu með Stjörnunni á síðustu leiktíð. Hún færir sig nú til Akureyrar.
Henríetta fagnar hér marki sínu með Stjörnunni á síðustu leiktíð. Hún færir sig nú til Akureyrar. Vísir/Diego

Henríetta Ágústsdóttir mun leika með Þór/KA í Bestu deild kvenna í knattspyrnu í sumar. Hún kemur á láni frá Stjörnunni.

Henríetta, sem verður tvítug á árinu, er miðjumaður að upplagi og ólst upp hjá HK. Hún meiddist illa árið 2023 og var frá keppni í dágóðan tíma. Hún sneri þó til baka á síðasta ári og lék alls 27 leiki með Stjörnunni í öllum keppnum.

Til þessa hefur Henríetta spilað 23 leiki í Bestu deildinni og 25 leiki í Lengjudeildinni. Einnig á hún að baki 12 leiki fyrir yngri landslið Íslands, þar af átta fyrir U-19 ára landsliðið.

Hún kom við sögu í tveimur leikjum Stjörnunnar í Bestu deildinni á leiktíðinni en eftir að Snædís María Jörundsdóttir gekk til liðs við Stjörnuna á nýjan leik virðist Henríetta hafa fengið leyfi til að finna sér annað lið.

Þór/KA er í 3. sæti deildarinnar sem stendur með tvo sigra og eitt tap á meðan Stjarnan er í 8. sæti með einn sigur og tvö töp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×