Erlent

Virginia Giuffre er látin

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Giuffre var ötul baráttukona gegn kynferðisofbeldi.
Giuffre var ötul baráttukona gegn kynferðisofbeldi. EPA

Virginia Giuffre, sem sakaði bæði Andrés prins og Jeffrey Epstein um kynferðisofbeldi, er látin, 41 árs að aldri. Dánarorsökin var sjálfsvíg. 

Fjölskylda hennar greinir breska ríkisútvarpinu frá þessu. 

Í þessari grein er fjallað um sjálfsvíg. Fólki með sjálfsvígshugsanir er bent á upplýsingasíma heilsugæslunnar s.1700, netspjallið heilsuvera.is, Hjálparsíma Rauða krossins s.1717, á netspjallið 1717.is og á Píeta símann s.552-2218. Þau sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi er bent á stuðning í Sorgarmiðstöð s. 551-4141, upplýsingasíma heilsugæslunnar s.1700, netspjallið heilsuvera.is og á Píeta símann s.552-2218.

Giuffre sakaði kynferðisafbrotamennina Jeffrey Epstein og Ghislaine Maxwell um mansal og sagði Andrés prins hafa nauðgað sér þrisvar sinnum á heimili Epstein frá því að hún var sautján ára gömul. Málið vakti heimsathygli og lauk með samkomulagi milli Andrésar og Giuffre. Ekki liggur fyrir hvað nákvæmlega fólst í samkomulaginu. 

Aðstandendur hennar sendu frá sér tilkynningu um andlát hennar á föstudaginn þar sem þeir segja hana baráttukonu gegn kynferðisofbeldi en að „afleiðingar ofbeldisins...reyndust henni óbærilegar“.

„Hún tók sitt eigið líf eftir að hafa verið fórnarlamb kynferðisofbeldi og mansals ævilangt,“ sagði í andlátstilkynningunni. 

Fram kemur að hún hafi látist á heimili sínu að bóndabæ í vesturhluta Ástralíu. Þá kemur fram að lögreglurannsókn hafi þegar leitt í ljós að andlát hennar hafi ekki borið að með grunsamlegum hætti. 

Giuffre lætur eftir sig þrjár dætur. Nýlega var greint frá því að hún og Robert eiginmaður hennar stæðu í skilnaði eftir 22 ára hjónaband. 

Fréttin hefur verið uppfærð. 


Tengdar fréttir

Andrés semur við Giuffre

Andrés prins hefur gert samkomulag við Virginiu Giuffre, sem hefur sakað hann um að misnota sig kynferðislega þegar hún var sautján ára gömul. Giuffre segist hafa verið fórnarlamb mannsals og segir Andrés hafa nauðgað sér þrisvar sinnum á heimilum auðjöfursins og barnaníðingsins Jeffrey Epstein.

Lögmaður Giuffre segir hana ekki munu sætta sig við fjárhagslega sátt

Virginia Giuffre mun að öllum líkindum ekki sætt sig við sátt í málinu gegn Andrési Bretaprins ef hún felur aðeins í sér fjárhagslegar skaðabætur. Lögmaður Giuffre segir hana vilja að sannleikurinn verði leiddur í ljós, fyrir sig og aðra þolendur Jeffrey Epstein.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×