Upp­gjörið: FHL - Valur 0-2 | Valskonur sóttu þrjú stig austur

Gunnar Gunnarsson skrifar
Valur hefur ekki enn fengið á sig mark.
Valur hefur ekki enn fengið á sig mark. Vísir/Jón Gautur

Valur vann sinn fyrsta leik í úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu á þessari leiktíð þegar liðið vann FHL í Fjarðabyggðarhöllinni í dag. Valur sótti í byrjun og uppskar mörkin snemma en leikurinn jafnaðist þegar á leið.

Leikurinn í dag var fyrsti heimaleikur FHL í úrvalsdeildinni og þar með fyrsti leikurinn í efstu deild kvenna á Austurlandi frá sumrinu 1994. Það mátti merkja aðeins taugatitring í byrjun hjá FHL á móti Val sem kom með skýrt upplegg að sækja upp kantana, einkum þann vinstri.

Það skilaði marki strax á 9. mínútu. Anna Rakel Pétursdóttir tók hornspyrnu frá vinstri og hitti beint á kollinn á Natöshu Anasi. Markið setti FHL aðeins út af laginu og Valur hafði tökin á leiknum.

Annað mark gestanna kom á 22. mínútu. Valur leysti úr hápressu FHL og Berglind Rós Ásgeirsdóttir fékk svæði til að vaða upp miðjuna. Hún stakk síðan boltanum inn fyrir á Jasmín Erlu Ingadóttur sem lék á markvörð FHL og sendi boltann í netið.

Stuttu seinna lenti Berglind í samstuði á miðjunni og varð nokkrum mínútum síðar að fara af velli. FHL fór að ná tökum á leiknum, einkum í gegnum Aidu Kardovic sem gat leyst úr þröngum stöðum eða fundið samherja í fætur. Langskot Jordyn Rhodes var það næsta sem komst marki það sem eftir var hálfleiks.

Í seinni hálfleik var það FHL sem var með boltann. Aida stjórnaði spilinu af miðjunni og Val gekk illa að stöðva hana en FHL náði þó ekki að skapa sér teljandi opin marktækifæri. Valur átti nokkrar góðar skyndisóknir en tók ekki að nýta þær. Mörkin urðu því ekki fleiri og Valur fer suður með stigin.

Atvik leiksins

0-1 Natasha. Valur var ekki með yfirburði i byrjun en eftir markið kom 10 mínútna kafli þar sem gestirnir réðu ferðinni.

Stjörnur og skúrkar

Aida Kardovic er stjarna leiksins. Hún kom FHL inn í leikinn á ný með yfirvegun sinni á boltann. Við sleppum því að kalla einhvern skúrk í dag.

Dómarar

Reynsluboltinn Steinar Stephensen, Aðstoðardómari 1, sýndiframúrskarandi bíða og sjá í innkasti á 44. mínútu leiksins.

Stemmning og umgjörð

Austfirðingar svöruðu kallinu um að mæta vel og það gladdi bæði liðin. Þeir þurfa að læra að mæta fyrr, strollan mætti fimm mínútum fyrir auglystan leiktíma og enn var röð í miðasölunni þegar leikurinn atti að vera hafinn. En heimaliðið lagði sig virkilega fram um að gera vel fyrir fyrsta leik.

„Mjög ánægður að fara heim með þrjú stig“

Matthías Guðmundsson var á sínum tíma aðstoðarmaður Péturs Péturssonar hjá Val. Nú er hann aðalþjálfari ásamt Kristjáni Guðmundssyni.Vísir/Tjörvi Týr

Matthías Guðmundsson, annar þjálfara Vals, var ánægður með sigurinn og frammistöðuna heilt yfir í dag.

„Ég er mjög ánægður með að fara heim með þrjú stig. Þetta var erfiður leikur eins og við bjuggumst við. Við fengum það sem við vildum í byrjun, skoruðum snemma en svo hægðist á leiknum og FHL unnu sig inn í hann. Það komu samt góðir kaflar eins og við væntum.

Fótboltinn er svona, oft kaflaskiptir. Þá þarf að vera sterkur í köflunum þar sem maður er undir og við vorum það sannarlega varnarlega.“

Matthías hrósaði móttökunum á Reyðarfirði en 350 manns mætti í Fjarðabyggðarhöllina. „Umgjörðin var stórkostleg og gaman að sjá svona marga mætta. Það er ánægjulegt að fá FHL í efstu deild. Það er frábært að ná fyrsta sigrinum og vörum glöð héðan.“

Valur missti Berglindir Rós Ágústsdóttur meidda af velli skömmu eftir seinna markið um miðjan fyrri hálfleik. 

„Ég býst ekki við að þetta sé alvarlegt en við urðum að taka hana út af.“

„Gríðarlega stoltur af stelpunum“

Björgvin Karl Gunnarsson, þjálfari FHL, var svekktur með að lið hans skyldi fá á sig tvö mörk snemma leiks sem urðu heimaliðinu að falli.Austurfrétt

„Ég er gríðarlega stoltur af stelpunum. Mér fannst þær frábærar. Leikurinn þróaðist svipað og við gerðum ráð fyrir, nema við hefðum ekki viljað fá þessi mörk á okkur í byrjun. Það hefði verið gaman að sjá hvernig leikurinn hefði farið ef við haldið lengur hreinu.

Auðvitað má gera ráð fyrir smá stressi í byrjun í fyrsta heimaleik. En það var ódýrt að fá á okkur mark eftir hornspyrnu, nokkuð sem við höfum lagt vinnu í að bæta. Síðan var smá klaufaskapur í öðru markinu, sem við áttum að geta komið í veg fyrir.

Á síðasta þriðjunginum vantaði aðeins að við nýttum góðar stöður sem við sköpuðum okkur en heildarframmistaðan ber þess merki að við getum gert ágætis mót.“

Leikurinn róaðist í raun eftir að Valur var kominn í 0-2. FHL hafði fram að því gengið illa að halda boltanum en fór þarna að finna Aidu Kardovic meira og hún stjórnaði síðan leik liðsins. „Hún er góð á boltann og gerði vel fyrir okkur. Við þurfum að tryggja að við séum með hlaup í kringum hana og nýtum þar sem hún býr til.“

Björgvin Karl hafði fyrir leikinn kallað eftir því að Austfirðingar sýndu stuðning í verki með að mæta á völlinn og um 350 manns borguðu sig inn. „Það var frábært að sjá yfir 300 manns hérna. Við kunnum þeim bestu þakkir fyrir.“

„Fannst við standa helvíti vel í þeim“

Rósey Björgvinsdóttir, fyrirliði FHL, var sátt með frammistöðu liðsins en fúl með að hún skyldi ekki skila FHL fyrsta stiginu. 

„Ég er fyrst og fremst svekkt eftir leikinn. Mér fannst við standa helvíti vel í þeim og eiga meira skilið.“

Valur hafði samt yfirburði fyrstu 20 mínúturnar og skoraði á þeim kafla mörkin tvö. 

„Valur spilaði bara eins og (Björgvin) Karl hefur farið yfir með okkur. Við vorum smá sofandi í fyrri hálfleik þannig þær skoruðu þessi mörk. Þess utan fannst mér leikurinn jafn – sem er stór árangur fyrir okkur miðað við stærðarmuninn á félögunum.“

FHL fékk sjö nýja leikmenn skömmu fyrir mót sem Rósey segir að passi vel inn í hópinn og væntir þess að liðið styrkist þegar þeir verði komnir í takt við það. 

„Þær smellpassa inn í hópinn. Þær komu seint til okkar þannig liðið er að fínpússast í þessum fyrstu leikjum.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira