Fótbolti

„Þarf ekki einu sinni að taka takka­skóna sjálf í leiki“

Aron Guðmundsson skrifar
Hlín Eiriksdóttur líkar lífið vel á Englandi hjá Leicester City
Hlín Eiriksdóttur líkar lífið vel á Englandi hjá Leicester City Vísir/Getty

Ís­lenska lands­liðs­konan Hlín Eiríks­dóttir steig í raun inn í nýjan veru­leika er hún samdi við enska liðið Leicester City fyrr á árinu. Hún er enn að venjast þeim veru­leika en finnur fyrir mikilli trú í sinn garð frá þjálfurum liðsins.

Hlín hafði gert frábæra hluti með sænska úr­vals­deildar­félaginu Kristian­stad áður en að kallið kom frá Leicester City á Eng­landi. Hlín hefur verið að fóta sig á nýjum slóðum og segir lífið á Eng­landi gott.

„Þetta er náttúru­lega mikil áskorun fyrir mig, að fara úr svona vernduðu um­hverfi í Svíþjóð þar sem að ég var með mjög mikið traust og fékk að spila hverja einustu mínútu yfir í meiri sam­keppni og stærra um­hverfi. Það er búið að vera mjög gott hingað til, mér líður vel og er komast hægt og ró­lega betur af stað með liðinu.“

Klippa: Hlín Eiríks um lífið í Leicester City

Hlín snertir á sam­keppninni. Það er barist um hverja einustu mínútu í liðinu og smávægi­leg meiðsli hafa sett strik í reikninginn hjá lands­liðs­konunni fyrstu mánuðina.

„Mér finnst ég alveg vera búin að fá traust frá þjálfaranum en svo meiðist ég aðeins og hef því ekki búin að vera spila mikið síðustu vikurnar en þjálfararnir hafa sýnt mér mikið traust og það er aug­ljóst að þeir hafa mikla trú á mér og það er ástæðan fyrir því að þau náðu í mig á miðju tíma­bili. Þau vildu virki­lega fá mig og ég hef ekki áhyggjur af mínútu­fjölda eins og staðan er núna. Þetta er risastórt stökk upp á við fyrir mig og maður finnur það alveg að ég hef minni tíma á boltanum í leikjunum, það er meiri sam­keppni um að komast í liðið, þetta er krefjandi en geggjað.

Ég lenti í vægri tognun í læri. Ekkert al­var­legt, bara smá vöðva­meiðsli og ég er orðin góð núna. Ég held það hafi tengst því að vera komin inn í nýtt um­hverfi, meira tempó og líkaminn að aðlagast því.“

Í leik með Leicester CityVísir/Getty

Eng­land, vagga fót­boltans á heims­vísu að mati margra og áhugi heima­manna á íþróttinni fer ekki fram hjá Hlín í Leicester.

„Það er ekki mýta að Eng­lendingar séu fót­bolta­sjúkir. Maður labbar niður í bæ og það er annar hver maður í Leicester City treyju. Svo er ég í rosa­lega fag­mann­legu um­hverfi. Það er allt gert fyrir okkur þarna. Maður þarf ekki einu sinni að taka takka­skóna sjálfur í leiki. Þetta er allt svolítið nýtt fyrir mér. Ég er enn að venjast gæða­stiginu innan vallar og komast inn í hlutina en það kemur.“

Viðtalið við Hlín í heild sinni, þar sem að hún ræðir meðal annars lands­leik morgun­dagsins gegn Noregi í Þjóða­deildinni sem og fjar­veru fyrir­liðans Glódísar Perlu Viggós­dóttur, má sjá hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×