Lífið

Adolescence: Börn ekki lengur örugg ein inni í her­bergi

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Mark Stanley, Owen Cooper og Stephen Graham í hlutverkum sínum í Adolescence.
Mark Stanley, Owen Cooper og Stephen Graham í hlutverkum sínum í Adolescence. Netflix

Börn eru ekki lengur örugg þar sem þau sitja ein inni í herberginu á heimili sínu. Þau lifa við allt annan veruleika en börn hafa lifað við hingað til. Sum geta eytt meiri tíma með karakterum á borð við Andrew Tate á netinu heldur en með eigin foreldrum í rauntíma. Þetta er meðal þess sem lesa má úr skilaboðum leiknu Netflix þáttaraðarinnar Adolescence sem slegið hefur í gegn.

Þáttaröðin hverfist um hinn þrettán ára gamla Jamie Miller sem handtekinn er fyrir morð og færður til yfirheyrslu. Hvað eftir annað endurtekur hann að hann hafi ekkert gert en sönnunargögn segja annað. Þættirnir hafa slegið áhorfsmet hjá Netflix og vakið gríðarlega athygli fyrir persónusköpun, handritsskrif en líka kvikmyndatöku þar sem hver þáttur er tekinn upp í einni samhangandi töku.

Eftir þættina sitja margir foreldrar eftir með kvíðahnút í maganum yfir því hvað sé um að vera í heimi barna þeirra. Hér verður farið yfir það helsta sem framleiðendur þáttanna hafa sagt um erindi þáttanna og vinsældir þeirra. Einnig eru fengnir álitsgjafar til þess að rýna í þættina og það sem þeim fannst standa upp úr.

Vert er að taka fram að einstaka spillar upp úr söguþræði þáttanna er að finna í umfjölluninni sem fylgir hér á eftir.

Broskallarnir sem hinir fullorðnu skilja ekki

Guðrún Inga Torfadóttir stjórnandi hlaðvarpsins Virðing í uppeldi, hlaðvarps Meðvitaðra foreldra, segist vera búin að elta alla umfjöllun sem hún kemst í um þættina. Hún segir þá endurspegla hvað foreldrahlutverkið sé orðið flókið og segist sjálf sjá dæmi um hvernig samfélagsmiðla- og snjallsímanotkun hefur áhrif á börn í félagslegum aðstæðum.

„Það er svo magnað til dæmis í þriðja þætti að þá segir Jamie einfaldlega að hann sé ljótur og trúir því að þar með tilheyri hann þessum áttatíu prósent karlmanna sem konur eigi ekki að hafa áhuga á. Hann trúir því og hefur engar forsendur til að draga neitt í efa, hann hefur ekki náð að spegla sig upphátt og tala við neinn. Það er það sem er svo vel leikið í þessu, hann er ekki meðvitaður um að þetta sé ekki sannleikur.“

Guðrún Inga er foreldri sem mikið hefur velt fyrir sér tengslamyndun barna, samfélagsmiðlanotkun þeirra og símanotkun.

Guðrún vísar þá líka til annars þáttar sem fer alfarið fram í skóla Jamie þar sem lögreglumenn reyna að finna morðvopnið. Hún segir það standa upp úr að í skólanum sé ekkert barnanna sérstaklega að útskýra orðið „incel.“ Lögreglumaðurinn nefni sjálfur Andrew Tate og það sé hans leið til að skilja um hvað málið snúist.

„En hjá börnunum orðið samofinn hluti af veruleika þeirra og skilningi á stöðu og hlutverki kynjanna sem er tekinn sem gefnum. Og hinir fullorðnu vita ekkert, hafa enga innsýn í þessa stöðu.“

Í þættinum sem um ræðir á lögreglufulltrúinn Luke Bascombe samræður við son sinn um samskipti þeirra Jamie og Katie stelpunnar sem hann myrti á samfélagsmiðlum. Miðað við Instagram samskipti þeirra telur Bascombe að þau hafi verið vinir og jafnvel átt í rómantískum kynnum. Sonur hans útskýrir fyrir honum að hann hafi hrapallega misskilið samskipti þeirra.

Lögreglumaðurinn Luke Bascombe sem leikinn er af Ashley Walters ræðir morðið og samskipti á samfélagsmiðlum við son sin Adam Bascombe sem leikinn er af Amari Bacchus.Netflix

Broskallar sem lögreglufulltrúanum þótti saklausir sýni í raun fram á að Jamie hafi verið lagður í einelti og að Katie hafi í raun ýjað að því að hann væri svokallaður „incel.“ Hugtakið vísar til manna sem telja sig tilneydda í skírlífi og heldur sá hópur sig fyrst og fremst á internetinu og telja núverandi samfélagsskipan sér í óvil og stilla sér upp gegn femínisma.

Katie skildi eftir broskalla við færslur Jamie á Instagram í þættinum, líkt og rauða pillu, dýnamít að springa og broskall með 100 merkinu. Það síðasta er vísun til þeirrar kenningar incel samfélagsins að 80 prósent kvenna laðist einungis að 20 prósentum karlmanna. Rauða pillan og dýnamítið vísa svo til mannhvelsins svokallaða (e. manosphere) og þess að vakna og átta sig á „bágborinni“ stöðu karlmanna. Katie þar með að ýja að því að Jamie sé incel og alls ekki um vinahót að ræða líkt og hinir fullorðnu héldu.

Broskallar hafa víðtæka merkingu og þessir geta vísað til incel menningar.

Eins og annar heimur á samfélagsmiðlum

Sjálf á Guðrún tvær dætur og er sú eldri orðin tíu ára. Dóttir hennar er ekki komin með síma og segir Guðrún hana upplifa öráreiti á hverjum degi vegna þessa. „Hún lýsir þessu þannig að það sé eins og allir séu að spila eitthvað borðspil sem hún viti ekkert um, af því þau eru alltaf að tala um eitthvað sem hún hefur enga innsýn í.“

Guðrún nefnir sem dæmi að dóttir hennar finni mikinn mun á því að taka þátt í félagsstarfi, til dæmis í leikhópi þar sem símanotkun er bönnuð og þar sem hún er ekki bönnuð. 

„Hún hefur upplifað að hún nái ekki að leika við neinn og ekki mynda nein tengsl þegar síminn er uppi. Svo þegar hann er bannaður finnur hún mikinn mun og leikhópurinn nær að mynda tengsl. Svo erum við foreldrar hennar miklir símafíklar og hún finnur alveg fyrir þessu.“

Hún segist ekki viss um hvenær þau muni leyfa dóttur sinni að fá síma. „Það kostar ekki mikið að bíða í þrjú ár, jafnvel fimm ár, leyfa framheilanum að þroskast aðeins meira. Ég og maðurinn ekki ákveðin hvenær við ætlum að afhenda barninu síma en það mun ekki gerast á næstu árum.“

Rætt er um Adolescence í bíó- og sjónvarpshlaðvarpinu Tveir á toppnum. Þar segir fjölmiðlakonan Kolbrún Bergþórsdóttir að hún telji að þættirnir ættu að vera skylduáhorf fyrir foreldra. 

Guðrún rifjar upp að hún hafi séð höfunda þáttanna þá Jack Thorne og Stephen Graham, sem einmitt fer með hlutverk föðursins í þáttunum, leggja áherslu á það í viðtölum að þeir hafi viljað að Miller fjölskyldan væri venjuleg fjölskylda. Þetta væri ekki fjölskylda þar sem móðirin sé drykkfelld eða pabbinn ofbeldisfullur fauti.

„Það er engin meiriháttar opinberun. Þetta er bara venjulegt fólk og sýnir veruleikann sem við búum við í dag. Þetta krefst þess að foreldrar séu orðnir svo hæfir, hver býr yfir þessari færni, að fylgjast með þessu öllu saman? Það er erfitt að fylgjast með heimalestri, hvað þá að trakka allt sem barnið er að gera.“

Guðrún segist telja þátt þrjú þar sem Jamie ræðir við sálfræðing vera meistarastykkið í seríunni. Þar uppgötvi sálfræðingurinn mjög kaldranalegar staðreyndir um drenginn og hverjuar hugmyndir hans eru um karlmennsku.

„Í lokin bregst drengurinn reiður og sár við þegar honum verður ljóst að áframhald verður ekki á þessum tengslum, sem hann hafði, þrátt fyrir að beita sálfræðinginn ógnunum og tala niður til hennar, fengið einhverja huggun úr og verið séður af fullorðinni manneskju. Hann sá fyrir sér að vera yfirgefinn og það var hræðileg tilhugsun fyrir hann, enda grunnþörf að tilheyra og vera í tengslum við annað fólk.“

Stephen Graham einn höfunda þáttanna og leikari ræðir tilurð þáttanna við Yahoo ásamt meðleikurum sínum Owen Cooper og Christine Tremarco.

Ekki bara símar og samfélagsmiðlar

Hulda Jónsdóttir Tölgyes sálfræðingur hefur unnið við áfallameðferð og lengi velt fyrir sér tengslamyndunungmenna, segir að þó samfélagsmiðlanotkun og símanotkun sé áskorun sem slík velti hún fyrir sér inn í hvaða menningu slíkt mæti.

„Ég horfi á það þannig að foreldrar þurfi að hugsa um áföllin sín í æsku og mér finnst það augljóst að pabbi stráksins hefði þurft að takast á við áföllin sín og æskuna til þess að geta mætt stráknum sínum og tilfinningunum hans svo strákurinn gæti berskjaldað sig fyrir honum,“ segir Hulda. Hún segir alveg ljóst að áföll foreldranna geti haft áhrif á börn þeirra.

„Æska foreldranna og svo æska foreldra þeirra hefur áhrif á það hvernig þau svo tengjast börnunum sínum og mæta þörfum þeirra. Það er margt gott og slæmt við samfélagsmiðla rétt eins og við menningu almennt. Notkunin á samfélagsmiðlum endurspeglar þann tíðaranda sem er í samfélaginu. Ég held að samfélagsmiðlar séu ekki djöfullinn, ég held það sé frekar samfélagsgerðin og sagan sem valda tengslaleysi og þar er hægt að nefna hvernig kynslóð foreldra okkar var alin upp.“

Rifjar Hulda upp að börnum hafi einfaldlega verið kennt að harka af sér þegar áföll bar að garði. Það hafi verið megin bjargráðið en í dag sé vitað að það hafi skaðleg áhrif þegar ekki sé gefið rými fyrir tilfinningar og börnum leyft að berskjalda sig, finna tilfinningar og fá stuðning.

„Eins og með drengi eins og Jamie. Þeir þurfa náttúrulega að fá rými til þess að vera litlir í sér, tala um tilfinningar sínar, geta sagt frá því ef þeim líður illa ef að kærastan hættir með þeim svo þeir geti unnið úr sársaukanum og grátið í stað þess að fríka út á fyrrverandi. Þarna í Adolescence er tengslaákall að eiga sér stað, sem má rekja til tengsla barnsins við foreldra sína og æsku þeirra og æsku forfeðranna þar sem Jamie leitast stöðugt eftir samþykki og öryggi“

Hulda segir áhugavert að sjá hvernig faðirinn hafi komið fram í þáttunum. Það sé alveg ljóst af þáttunum að Jamie líti mest upp til hans. „Og það gerist ekkert í tómi. Við sjáum að það bregður fyrir kvenfyrirlitningu hjá pabbanum, hvernig hann talar um nágrannakonu sína og auðvitað lærir strákurinn líka af pabba sínum hvaða virðingu hann á að bera fyrir konum. Hann fær alla þessa hugmyndafræði beint í æð drengurinn. Frá pabba og samfélaginu.“

Owen Cooper og Erin Doherty ræddu þriðja þáttinn í innslaginu hér fyrir neðan.

Mikilvægasta ráðið til foreldra

Hún segist skilja vel að margir foreldrar sitji eftir með kvíðahnút í maganum eftir að hafa horft á þættina. Hulda segir að við aukinni vanlíðan barna og auknu ofbeldi þeirra í garð hvers annars sé henni eitt bjargráð efst í huga: Tengslin við þau

„Ég myndi ráðleggja þeim að fara inn í tengslin, inn í samveruna. Skoða tengslasögu okkar, hvort það sé eitthvað þar sem við þurfum að vinna úr til þess að geta mætt börnunum okkar. Ég held að foreldrar séu pínu smeykir og mér finnst þættirnir klárlega tala inn í íslenskan veruleika þar sem kvenfyrirlitning, rasismi og hómófóbía grassera,“ útskýrir Hulda.

„Þetta sprettur ekki upp úr tómi. Ung stúlka lét hér lífið á Menningarnótt þar sem hún var myrt af ungum dreng. Ég held við séum ekki að ná að hlúa að börnunum okkar eins og nauðsynlegt er. Það er margt sem er hægt að benda á annað en símanotkun og samfélagsmiðla, þó það séu allskonar púsl í þessu. Auðvitað er þægilegt að segja: Bönnum síma, en við þurfum að leyfa okkur að sitja í þessum óþægindum og tala saman, jafnvel þó það sé óþægilegt og alls ekki einfalt.“

Um er að ræða fyrsta hlutverk Owen Cooper í sjónvarpsþáttum. Hann þykir hafa sýnt stórleik sem Jamie Miller.

Hulda segist skilja að veruleikinn sé gjarnan erfiður, fólk þurfi að borga sína reikninga, mæta til vinnu og svo framvegis. Börn verði hinsvegar alltaf að geta leitað í öryggi, helst hjá foreldrum sínum, því annars sækja þau það annað. .

„Og þau verða að geta upplifað sig örugg og að við sem fullorðnir einstaklingar getum mætt þeim og öllum þeirra pörtum, nákvæmlega eins og þau eru og samþykkt þau með öllu sem býr innra með þeim þannig að þau geti svo sjálf samþykkt sig og skilið sig og tilfinningar sínar. Af hverju verð ég svona reiður? Hvað gerist þá? Það er eðlilegt að vera reiður og þá finna reiðinni farveg, við verðum að mega tala og geta hlaupið í fang einhvers. 

Ég held að mikilvægast sé að við sköpum samfélag þar sem er rými fyrir þetta, þar sem foreldrar geta varið tíma með börnunum sínum.Þetta er allt samofið og þá er gott að vera meðvitaður um hvað sagan hefur mikil áhrif á okkur og hvernig æska okkar og tengslamyndun hafa áhrif á æsku barnanna okkar. Því það gerist sjálfkrafa nema við hlúum að okkur sjálfum og sköpum öryggi.“

Stephen Graham mætti í morgunþáttinn Today Show og ræddi það meðal annars hvers vegna hann telur að þættirnir hafi slegið eins mikið í gegn og raun ber vitni. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.