Sveinn Margeir gekk í raðir Víkings á sama tíma og Daníel Hafsteinsson. Þá var þó ljóst að Sveinn Margeir, sem skrifaði undir samning til 2028, myndi aðeins ná nokkrum vikum með liðinu í ár. Það hafði ekki áhrif á ákvörðun Arnars Gunnlaugssonar, þáverandi þjálfara Víkings, þar sem hann sá Svein Margeir fyrir sér sem framtíðarmann liðsins.
Nú gæti farið svo að Sveinn Margeir missi af öllu sumrinu. Fótbolti.net greinir frá að hann hafi nýverið orðið fyrir meiðslum á hné og sé á leið í speglun til að skera úr um hversu slæm meiðslin eru.
„Hann þarf allavega að fara eitthvað undir hnífinn,“ sagði Sölvi Geir Ottesen, þjálfari Víkinga, í viðtali við Fótbolti.net um meiðslin.
Þó síðasta tímabili sé í raun nýlokið hjá Víkingum gefst ekki mikill tími til að sleikja sárin þar sem næsta tímabil hefst snemma í apríl.
Víkingar taka á móti ÍBV í 1. umferð Bestu deildar karla þann 7. apríl næstkomandi.