Slóvenska körfuknattleikssambandið er búið að gera óformlegt samkomulag við KKÍ um að landsliðin spili æfingaleik fyrir Evrópumótið sem fer fram í haust.
„Slóvenía lofaði okkur því síðasta sumar, að þeir myndu koma hingað í æfingaleik ef við kæmumst á EM, og taka Luka Dončić með sér“ sagði landsliðsþjálfarinn Craig Pedersen eftir að Ísland tryggði sér sæti á EM í gærkvöldi.
„Það er ekkert staðfest enn þá og margt sem á eftir að koma í ljós en þeir töluðu um þetta.
Það væri risastórt að spila við þá. En það veltur líka á því með hverjum við verðum í riðli. Ef við lendum með Slóveníu í riðli er ekki sniðugt að spila æfingaleik við þá líka.“
Dregið verður í riðla þann 27. mars næstkomandi, svo hefst undirbúningurinn.
„Við þurfum bara að bíða og sjá, en það verða einhverjir æfingaleikir“ sagði Craig að lokum.