Körfubolti

Fimm sigrar og eitt grát­legt tap í síðustu sjö lands­leikjum Martins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Martin Hermannsson á fleygiferð í síðasta landsleiknum sínum sem var naumt tap á móti Tyrkjum fyrir ári síðan.
Martin Hermannsson á fleygiferð í síðasta landsleiknum sínum sem var naumt tap á móti Tyrkjum fyrir ári síðan. Getty/Esra Bilgin

Íslenska körfuboltalandsliðið mætir með ás upp í erminni í Ungverjalandi í kvöld því Martin Hermannsson er mættur til að hjálpa strákunum að taka síðasta skrefið inn á Eurobasket.

Martin hefur verið afar óheppinn með meiðsli undanfarin ár og af þeim sökum og öðrum hefur hann misst af 24 af 30 leikjum liðsins undanfarin fimm ár.

Nú er hann aftur á móti klár í slaginn og sigur á Ungverjum gulltryggir íslenska liðinu sæti á EM næsta haust.

Martin er einn af þremur í íslenska liðinu sem hefur verið með á báðum Eurobasket mótum Íslands en hann, Ægir Þór Steinarsson og Haukur Helgi Pálsson geta orðið þeir fyrstu til að taka þátt í þremur Evrópumótum með íslenska landsliðinu.

Það hefur líka gengið vel með Martin í síðustu sjö landsleikjum sem hann hefur spilað.

Íslenska liðið hefur fagnað sigri í fimm þeirra og annar tapleikjanna var grátlegt eins stigs tap fyrir Tyrkjum í Istanbul í fyrra.

Með Martin innanborðs hafa strákarnir aftur á móti unnið Svisslendinga, Portúgala, Hollendinga, Ítala og Ungverja í undankeppnum stórmóta undanfarin ár.

Eini skellurinn var 24 stiga tap á útivelli á móti Sviss í ágúst 2019 en Martin gerði þó sitt því hann var með 28 stig og 75 prósent þriggja stiga nýtingu í leiknum.

Martin var í hóp í leikjum við Ítala í febrúar 2022 og Rússland í nóvember 2021 en kom ekki inn á völlinn. Hann fær þar skráða landsleiki en þar sem hann var hvíldur í þessum leikjum þá tökum við þá ekki inn í þessa samantekt.

Leikurinn á móti Ungverjum hefst klukkan 17.00 í dag og það verður fylgst með honum inn á Vísi.

Martin Hermannsson hefur því miður misst af mörgum landsleikjum undanfarin ár þar á meðal á móti Rússum í Sánkti Pétursburg í nóvember 2021.Getty/Mike Kireev
  • Síðustu sjö spilaðir leikir Martins Hermannssonar með íslenska landsliðinu:
  • 10. ágúst 2019
  • 83-82 sigur á Sviss
  • Martin með 16 stig og 3 stoðsendingar
  • -
  • 17. ágúst 2019
  • 96-68 sigur á Portúgal
  • Martin með 19 stig og 7 stoðsendingar
  • -
  • 21. ágúst 2019
  • 85-109 tap fyrir Sviss
  • Martin með 28 stig og 3 stoðsendingar
  • -
  • 26. nóvember 2021
  • 79-77 sigur á Hollandi
  • Martin með 27 stig og 3 stoðsendingar
  • -
  • 24. febrúar 2022
  • 107-105 sigur á Ítalíu
  • Martin með 23 stig og 7 stoðsendingar
  • -
  • 22. febrúar 2024
  • 70-65 sigur á Ungverjalandi
  • Martin með 17 stig og 4 stoðsendingar
  • -
  • 25. febrúar 2025
  • 75-76 tap fyrir Tyrklandi
  • Martin með 15 stig og 4 stoðsendingar
  • -
  • Meðaltöl Martins í þessum sjö leikjum:
  • Stig: 21,5
  • Stoðsendingar: 4,7
  • Skotnýting: 49%
  • Þriggja stiga nýting: 44% (12 af 27)
  • Vítanýting: 94% (33 af 35)



Fleiri fréttir

Sjá meira


×