Þetta staðfestir E. Agnes Eide Kristínardóttir, yfirlögregluþjónn rannsóknarsviðs Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við fréttastofu. Hún segir ekki langt síðan málið kom á borð lögreglu og það sé í frumskoðun.
Rúv greindi frá því í gær að lögreglan hefði málið til rannsóknar.
Mikið var fjallað um smitið eftir að málið kom upp í október. Leikskólanum var lokað og alls greindust 49 einstaklingar með shiga-toxin myndandi E.coli-gerla. Þar af voru 45 börn á Mánagarði, einn starfsmaður, eitt barn starfsmanns sem borðaði á leikskólanum þennan dag og tveir fjölskyldumeðlimir smitaðs barns.
Í lokaskýrslu landlæknis um hópsýkinguna sagði að tólf börn hefðu verið lögð inn á legudeild Barnaspítala Hringsins, fimm börn inn á gjörgæslu og tvö þurft skilunarmeðferð vegna nýrnabilunar. Einkenni barnanna hafi verið allt frá vægum niðurgangi upp í „svæsinn blóðugan niðurgang“ og alvarleg veikindi með nýrnabilun.
Sýkinguna mátti rekja til hakks sem var borið á borð í leikskólanum. Ekki er ljóst hvort kjötið bar með sér saurgerlana sem ollu smitinu. Eldamennska og geymsla á hakkinu þótti ekki hafa verið nægjanlega góð.
Um var að ræða blanda af þýsku nautakjöti og norðlensku kindakjöti.