Erlent

Fyrsti opin­ber­lega samkynhneigði imaminn skotinn til bana

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Hendricks sagði þörfina fyrir að vera hann sjálfur meira knýjandi en áhyggjur af öryggi sínu.
Hendricks sagði þörfina fyrir að vera hann sjálfur meira knýjandi en áhyggjur af öryggi sínu.

Muhsin Hendricks, sem var þekktur fyrir að vera fyrsti imaminn til að koma út úr skápnum opinberlega, var skotinn til bana í Suður-Afríku á laugardag.

Hinn 57 ára Hendricks fór fyrir mosku í Höfðaborg þar sem samkynhneigðir múslimar og aðrir jaðarhópar áttu öruggt skjól. 

Samkvæmt lögreglu var setið fyrir bifreið sem Hendricks var í. Tveir einstaklingar eru sagðir hafa skotið á bifreiðina, með þeim afleiðingum að Hendricks lést.

Morðið hefur vakið athygli og óhug í hinsegin samfélaginu og Julia Ehrt, framkvæmastjóri International Lesbian, Gay, Bisexual, Trans and Intersex Association (Ilga) segir nauðsynlegt að yfirvöld rannsaki málið í þaula. 

Óttast sé að um hatursglæp hafi verið að ræða.

„Hann studdi og var fyrirmynd svo margra í Suður-Afríku og um allan heim á vegferð þeirra til að finna sig í trúnni og líf hans hefur verið vitnisburður um þá heilun sem eining þvert á samfélög getur fært,“ hefur BBC eftir Ehrt.

Fregnir herma að Hendricks hafi verið myrtur eftir að hann gaf saman lesbískt par.

Samkvæmt BBC olli það nokkru uppnámi meðal múslima í Höfðaborg þegar Hendricks kom opinberlega út úr skápnum árið 1996. Suður-Afríka var fyrsta Afríkuríkið til að lögfesta hjónaband samkynja para en fordómar og ofbeldi gagnvart hinsegin fólki eru enn vandamál í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×