Erlent

Gera um­fangs­mikið áhlaupa á Vestur­bakkanum

Samúel Karl Ólason skrifar
Palestínskur maður virðir fyrir sér skemmdirnar eftir árásir landtökumanna á tvö þorp á Vesturbakkanum í gærkvöldi.
Palestínskur maður virðir fyrir sér skemmdirnar eftir árásir landtökumanna á tvö þorp á Vesturbakkanum í gærkvöldi. AP/Majdi Mohammed

Ísraelskir hermenn gerðu í morgun áhlaup á Jenin á Vesturbakkanum, sem talið er að muni standa yfir í að minnsta kosti nokkra daga. Áhlaupið hófst á nokkrum drónaárásum sem herinn segir að hafi beinst að innviðum hryðjuverkasamtaka.

AP fréttaveitan hefur eftir embættismönnum á Vesturbakkanum að tveir Palestínumenn hafi fallið í árásunum sem gerðar voru á flóttamannabúðir í Jenin. Áhlaup hersins virðist beinast að þeim búðum og hafa Ísraelar gert áhlaup á þær áður.

Fjölmiðlar í Ísrael hafa eftir Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísrael, að hernaðaraðgerð þessi beri titilinn „Járnveggur“ og að áhlaupinu sé ætlað að „útrýma“ hryðjuverkastarfsemi í Jenin.

Hann segir árásirnar beinast gegn handbendum klerkastjórnarinnar í Íran og að aðgerðin muni halda áfram eins lengi og til þurfi.

Réðust á tvö þorp

Áhlaupið kemur í kjölfar þess að hópur landtökumanna réðst á Palestínumenn á Vesturbakkanum í gærkvöldi. Bílar og hús voru brennd en Kan hefur eftir heimamönnum að um þrjú hundruð manns hafi tekið þátt í árasunum.

Times of Israel segir að landtökumenn hafi gert árásir á tvö þorp á Vesturbakkanum og að tveir Ísraelar hafi verið skotnir og særðir alvarlega af lögregluþjónum. Mennirnir, sem voru grímuklæddir, eru sagðir hafa ráðist á lögregluþjón og sprautað piparúða á hann.

Eftir að stríðið hófst á Gasaströndinni fjölgaði árásum landtökumanna á Vesturbakkanum. Ísraelski herinn hefur einnig gert mörg áhlaup á svæðinu.

Sjá einnig: Landtökumenn ganga berserksgang á Vesturbakkanum

Árásin í gær var gerð á svipuðum tíma og Donald Trump, nýr forseti Bandaríkjanna, tilkynnti að hann væri að fella úr gildi refsiaðgerðir gegn ísraelskum landtökumönnum sem beita Palestínumenn ofbeldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×