Erlent

Tíu ára drengur lést eftir bíl­slys á Ítalíu

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Frá Napólí á Ítalíu en slysið varð í bæ nærri ítölsku borginni.
Frá Napólí á Ítalíu en slysið varð í bæ nærri ítölsku borginni. Unsplash/Grafi Jeremiah

Tíu ára pólskur drengur sem býr á Íslandi lést af slysaförum á Ítalíu í gær. Drengurinn var ásamt foreldrum sínum, systur og öðrum fjölskyldumeðlimum í fríi í bænum Nola nærri borginni Napólí.

DV greindi fyrst frá og vísar til umfjöllunar í ítölskum miðlum. Meðal annars er fjallað um banaslysið á vef Ilmattino.it. Ítölsku miðlarnir segja fjölskylduna hafa búið á Íslandi. Fréttastofa hefur núna fengið staðfestar upplýsingar um að drengurinn var búsettur í Árbæjarhverfi í Reykjavík og nemandi í Árbæjarskóla. 

Í frétt Vísis sagði áður að fjölskyldan væri búsett í Finnlandi og leiðréttist það hér með.

Bærinn Nola er rétt fyrir utan Napólí.Grafík/Hjalti

Í umfjöllun ítalskra fréttamiðla segir að fjölskyldan hafi verið á gangi við gatnamót að brautarteinum þegar Renault bifreið kom akandi hinum megin við teinanna. Viðvörunarbjöllur hafi farið að hringja og ljós blikkað þegar lest nálgaðist og brautarhliðið var að lokast. Ökumaðurinn steig á bensínið til að ná yfir teinana. Þar var fyrrnefnd fjölskylda á göngu og var bílnum ekið á drenginn.

Fram kemur í ítalska miðlinum að ökumaðurinn hafi keyrt drenginn upp á spítala þar sem hann var úrskurðaður látinn. Málið er til rannsóknar hjá yfirvöldum á svæðinu en ökumaðurinn mun þegar hafa verið ákærður fyrir að verða valdur að andláti drengsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×