Þetta sagði Gunnlaugur í Bítinu á Bylgjunni í morgun. Viðtalið má heyra í spilaranum hér að neðan:
Hann segir verðhækkanir á raforku hafa komið aftan að öllum fyrirtækjum landsins og raunar öllum sem nota raforku. Þær séu til komnar vegna breytts fyrirkomulags á sölu Landsvirkjunar og skorts á orku.
„Nú er kominn svo mikill skortur að þessir smásölusamningar, það vantar orku inn í þá, þá rýkur verðið upp. Í stað þess að hækka sína gjaldskrá, gera einhverjar breytingar á henni eins og verið hefur, vísitöluþróun eða eitthvað slíkt, þá fóru þeir þá leið að búa til eitthvað skrifborð úti í bæ, sem einhver fyrrverandi starfsmaður fyrirtækisins situr við. Ég kalla það nú gullslegið skrifborð. Þar fer orkan í gegn og þetta heitir orðið uppboðsmarkaður.“
Hækkar að meðaltali um fjórðung
Gunnlaugur segir að áhrif á garðyrkjubændur sé að meðaltali 25 prósent hækkun raforkuverðs nú um áramótin.
Ýmsar plöntur þurfi ljós á daginn þegar verðið sé miklu hærra og fari enn hækkandi. „Þetta er þá í rauninni á örfáum árum, þessi hluti af orkunni, um hundrað prósent hækkun. Og þetta er ekki það versta. Nú erum við að tala um 2025 og það er bara 2025. Menn hafa enga framtíðarsýn, svo mun þetta bara hækka enn meira. Það er verið að bjóða þjóðinni upp á það að við vitum ekkert hvað rafmagnið kostar árið 2026 og svo framvegis.“
Ekki endalaust hægt að velta hækkunum út í verðlagið
Gunnlaugur segir áhrif verðhækkana á raforku birtast fyrst hjá heimilunum. Þau þurfi að greiða hærra verð fyrir raforkuna sjálfa og allt sem framleitt er með notkun rafmagns.
Þá segir hann að ekki sé endilega hægt að hækka verð á framleiddum vörum til þess að mæta hækkandi raforkuverði.
„Þetta getur haft þau áhrif að einhverjir verði ekki samkeppnishæfir og verði bara að hætta. Við erum í rauninni að sópa út einhverjum greinum. Þetta hefur auðvitað áhrif á kostnað við reksturinn og þó að menn hafi verið útsjónarsamir, aukið framleiðni, náð meiri árangri, verið með betri lýsingu og aukið framleiðni í sínum gróðurhúsum, til dæmis, þá eru auðvitað einhver takmörk á því hversu lengi þetta getur haldið áfram svona.“