Erlent

Skorar á Trump í aðrar kapp­ræður

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Harris þykir hafa staðið sig mun betur í síðustu kappræðum en Trump.
Harris þykir hafa staðið sig mun betur í síðustu kappræðum en Trump. Getty/Win McNamee

Kamala Harris, forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins í komandi kosningum í Bandaríkjunum, samþykkti boð sjónvarpsstöðvarinnar CNN um þátttöku í kappræðum á þeirra vegum og skoraði á Donald Trump mótframbjóðanda sinn að mæta sér.

„Donald Trump ætti ekki að hafa neitt á móti því að samþykkja þátttöku í þessum kappræðum. Þær fara fram á sama hátt og kappræðurnar á CNN sem hann tók þátt í og sagðist hafa unnið í júní, þar sem hann hrósaði stjórnendum, reglum og áhorfi CNN,“ segir Jen O'Malley Dillon kosningastjóri Kamölu í yfirlýsingu.

„Ég myndi glöð taka þátt í öðrum kappræðum þann 23. október. Ég vona að Donald Trump mæti mér,“ skrifar Kamala Harris í færslu á samfélagsmiðlinum X í dag.

Harris og Trump mættust í sjónvarpskappræðum þann tíunda september og taldi meirihluti í skoðanakönnunum Harris hafa komið betur út úr þeim. Trump hefur sagt með afgerandi hætti að hann ætli sér ekki að mæta Harris í öðrum kappræðum.

„ÞAÐ VERÐA ENGAR ÞRIÐJU KAPPRÆÐUR,“ skrifaði hann meðal annars á samfélagsmiðli sínum Truth Social skömmu eftir kappræðurnar.

Nýjustu skoðanakannanir sýna að frambjóðendurnir tveir séu hnífjafnir á landsvísu en að Harris sé með forskot í Pennsylvaníuríki, einu helsta barátturíkinu sem gæti komið til með að skera úr um sigurvegara kosninganna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×