Frá þessu segir á bandaríska miðlinum People. Þar er fullyrt að leikkonan hafi sótt um skilnað í júlí síðastliðnum og hann gengið í gegn í Frakklandi í síðasta mánuði. Þar hafa hjónin búið með börnin sín tvö, hinn tólf ára gamla Aleph og sjö ára gömlu Amaliu.
Lítið hefur farið fyrir skilnaðnum í gulu pressunni. Talsmaður Portman segir í samtali við People að það hafi reynst henni erfitt að ganga í gegn um skilnaðinn án vitundar nokkurs manns. Skilnaðurinn sé tilkominn vegna framhjáhalds Millepied, sem rataði í fréttir í maí í fyrra.
Fram kemur í umfjöllun People að framhjáhald Millepied hafi ekki varað í langan tíma en Portman hafi vitað frá því að fréttir um það bárust að líftími hjónabandsins væri liðinn. Þau hafi einblínt á að gera skilnaðinn sem auðveldastan fyrir börnin, samhliða því að sinna stórum verkefnum í vinnunni.
Millepied hefur til að mynda unnið að stórmyndinni Dune: Part Two, sem kom í bíó í síðustu viku, og Portman haft í nógu að snúast vegna kvikmyndarinnar May December, sem hún leikur aðalhlutverk í.
Millepied og Portman hafa, eins og áður segir, verið gift í ellefu ár eða frá 4. ágúst 2012. Parið kynntist við gerð kvikmyndarinnar Black Swan árið 2010. Portman lék aðalhlutverkið í myndinni og Millepied var danshöfundurinn en kvikmyndin fjallar um balletdansara.