Hefðbundin nýársmóttaka Margrétar Þórhildar Danadrottningar var haldin fyrir sendiherra erlendra ríkja í Danmörku. Árni Þór Sigurðsson sendiherra og eiginkona hans Sigurbjörg Þorsteinsdóttir voru fulltrúar Íslands á móttökunni en fengu einnig sérstaka áheyrn drottningar.
„Það var stutt, eins og oft við svona tilfelli en hún var áhugasöm og spurði mig út í stöðuna með eldgosið og íbúana í Grindavík. Hún var greinilega vel heima í því og upplýst,“ segir Árni Þór í samtali við fréttastofu.
„Hún var að forvitnast um það hvernig fólk upplifði þessa stöðu á vettvangi og ég reyndi að segja henni af því sem maður vissi sjálfur. Hún var forvitin að vita um líðan fólks og hvernig fólk upplifir það að vera flutt að heiman í margar vikur. Hún vissi um þetta og þekkti Grindavík.“
Jafnframt hafi þau rætt samskipti ríkjanna tveggja og hún minnst á frú Vigdísi, vinkonu sína, beðið fyrir kveðju og þau svo rætt komandi forsetakosningar.
Mikil tímamót eru yfirvofandi í Danmörku og þetta síðasta nýársmóttaka Margrétar. Hún tilkynnti það í gamlársávarpi sínu að hún muni stíga til hliðar 14. janúar næstkomandi og rétta Friðriki syni sínum keflið.
„Þetta er ekki venjulegt hér og þau vita ekki alveg hvernig þetta fer fram. Ég var líka aðeins að spyrja starfsmenn hallarinnar út í það hvernig svona skipti fari fram Þeir voru svolítið bara eitt spurningamerki og sögðust ekki vita það, hefðu aldrei gert þetta áður,“ segir Árni.
„Ég held að þetta verði ekki svona mikið, eins og í Bretlandi, það verður engin krýning. Það verður bara ríkisráðsfundur og forsætisráðherrann tilkynnir svo að þeir hafi fengið nýjan þjóðhöfðingja.“