Almannavarnir vara við því að ár gætu flætt yfir bakka og nærliggjandi vegi. Landverðir í Hólaskjóli hafa orðið varir við brennisteinslykt á svæðinu og Veðurstofan varar við megnun sem getur skaðað slímhúð í öndunarfærum og augum.
Rannsóknarstofa Háskóla Íslands í eldfjallafræði segir gervitunglamyndir sýna að upptök hlaupsins séu líklega í eystri katlinum. Almannavarnir ráðleggja fólki eindregið að halda sig fjarri farvegi Skaftár og á jörðum Skaftárjökuls, Tungnárjökuls og Síðujökuls á meðan hlaupið stendur yfir.
Hámark á næstu tveimur sólarhringum
Þorsteinn Þorsteinsson, sérfræðingur á sviði jöklarannsókna hjá Veðurstofunni, segir að rennslið á efstu mælistöðinni, við Sveinstind, mælist 600 rúmmetrar á sekúndu sem teljist ekki sem stórt hlaup. Hins vegar hafi rennslisaukning mælst síðdegis og útlit fyrir að meira sé í katlinum, hvor sem það nú er. Sá eystri eða sá vestari, sem Þorsteinn telur líklegri í þetta skiptið út frá hlaupferlinum.
„Þó það sé alls ekki víst er líklegt að þetta nái hámarki innan tveggja sólarhringa,“ segir Þorsteinn.
Þjóðvegurinn öruggur í bili
Aðspurður um flóðahættu segir Þorsteinn að bændur verði fyrir óþægindum af hlaupinu. Hlaupið sé það lítið að ekki sé talin hætta sé á að það flæði yfir þjóðveginn.
„Ef þetta reynist vera úr eystri katlinum, sem við vitum ekki enn þá, gæti hlaupið sótt verulega í sig veðrið og orðið talsvert stærra en nú er. Svo er líka sá möguleiki, ef þetta er vestari ketillinn, að hinn komi með hlaup í kjölfarið ofan í hitt,“ segir Þorsteinn. Það sé þó ekki sértaklega líklegt á þessari stundu.
Leysingavatn gæti bæst við
Um helgina er spáð stormi og það getur haft áhrif að sögn Þorsteins. Það er ef leysingavatn úr jöklum bætist við lónin sem eru upptök þessara hlaupa. Þetta viðbótarvatn getur komið af stað heilu hlaupi.
„Við ættum að gera ráð fyrir þeim möguleika að eitthvað slíkt gæti orðið en ég er ekki að segja að það sé að fara að gerast,“ segir Þorsteinn að lokum.