Innlent

Tók fjórar mínútur að koma heimilis­fólki á Hrafnistu í skjól

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
María Fjóla Harðardóttir, forstjóri Hrafnistu, segist stolt af sínu starfsfólki og skjótum viðbrögðum þeirra þegar eldur kom upp í gær.
María Fjóla Harðardóttir, forstjóri Hrafnistu, segist stolt af sínu starfsfólki og skjótum viðbrögðum þeirra þegar eldur kom upp í gær. Vísir/Bjarni

Það tók innan við fjórar mínútur að koma heimilisfólki á Hrafnistu í öruggt skjól þegar eldur kom upp á hjúkrunarheimilinu við Sléttuveg í gær. Heimilisfólkinu var nokkuð brugðið og býðst áfallahjálp eftir atvikið, en ríflega tuttugu íbúar dvelja nú í tímabundnum úrræðum á meðan unnið er að því að koma deildinni aftur í horf.

Eldurinn kom upp í rafmagnstöflu á gangi húsnæðisins og lagði reyk inn á gang með þeim afleiðingum að rýma þurfti tvo ganga húsnæðisins. Alls búa 22 íbúar á þessum tveimur göngum.

Deildin er rafmagnslaus af því þetta kom upp í rafmagnstöflu. Það er mikil sót og aska og lykt sem þarf að hreinsa,“ segir María Fjóla Harðardóttir, forstjóri HRafnstu, en rætt var við hana í kvöldfréttum Sýnar. Hún segir mögulega þurfa að mála auk þess sem töluverðar vatnsskemdir urðu á húsnæðinu.

Ljóst sé að það muni taka einhvern tíma að koma öllu í stand aftur, en á meðan þurfa íbúar deildarinnar, sem flestir hverjir þurfa mikla þjónustu, að dvelja annars staðar.

„Við erum með hvíldarinnlagnir á heimilunum. Það var samið við fólk sem sýndi því mikinn skilning og við þökkum kærlega fyrir það. Að fara fyrr heim úr hvíldarinnlögn til að koma fólki sem hér var í skjól,“ segir María Fjóla og að tekist hafi að koma öllum íbúum fyrir á herbergjum Hrafnistu á Laugarási í Reykjavík og Hraunvangi í Hafnarfirði.

Þakklæti er henni efst í huga.

Í raun og veru var búið að koma öllu fólkinu í skjól áður en slökkviliðið kom á staðinn,“ segir María og að starfsfólk HRanfistu sé ótrúlegt. Hún sé svo stolt af þeim og þeirra viðbrögðum.

Rætt er í fréttinni einnig við einn heimilismann sem kom heim á meðan viðbragðsaðilar voru enn við störf í gær eftir að eldurinn kom upp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×