Innlent

Vildi að sonurinn hefði aldrei farið á Stuðla

Tómas Arnar Þorláksson skrifar
Hilma Dögg Hávarðardóttir.
Hilma Dögg Hávarðardóttir. Vísir/bjarni

Móðir drengs sem svipti sig lífi eftir margra ára baráttu við fíknivanda segir meðferðarheimili Stuðla hafa gert illt verra og að sonur sinn hafi orðið fyrir ofbeldi innan heimilisins. Úrræðaleysi og afskiptaleysi taki við eftir átján ára aldur.

Hávarður Máni Hjörleifsson lést í september eftir átta ára baráttu við fíknivanda. Hann byrjaði að fikta með áfengi og kannabis, tólf ára gamall, en var byrjaður að sprauta sig sautján ára. Hann var endurtekið vistaður á Stuðlum frá tólf ára aldri.

Að mati Hilmu Daggar Hávarðardóttur, móður Hávarðar, gerðu vistanir á Stuðlum drengnum meira slæmt en gott.

„Við erum ekki að berja okkur niður fyrir það að hann hafi farið þarna inn. Við bara vissum ekki betur. En ég hefði allan daginn aldrei sett hann þarna inn ef ég hefði vitað hvernig þetta var í raun og veru.“

Finnst ykkur þið vera svikin af kerfinu út af þessu?

„Já, það er algjörlega þannig. Þetta hefði ekki þurft að fara svona í hans tilfelli.“

Inni á Stuðlum sem hann verður „sprautufíkill“

Faðir Hávarðar hefur áður tjáð sig opinberlega og talaði þar um að þegar Hávarður fór fyrst á Stuðla var hann vistaður með strák sem var fimm árum eldri og í talsvert harðari neyslu. Það hafi haft áhrif á drenginn.

Hilma tekur undir það.

„Þegar hann fer fyrst inn á Stuðla var hann byrjaður að stinga af og farinn að fikta við að reykja gras. Það gerist á þessu tímabili sem hann er inni á Stuðlum að hann verður sprautufíkill.“

Frítt flæði fíkniefna hafi verið inn og út af stuðlum á þeim tíma. Hann hafi komist í snertingu við harðari efni inn á heimilinu.

„Ef þeir ætla að koma einhverju inn þá gera þeir það bara.“

Sonurinn hafi einnig orðið fyrir árás frá starfsmanni

Lögreglan rannsakar mál, þar sem starfsmaður á að hafa ráðist á dreng á Stuðlum í lok júní, sem stórfellda líkamsárás. Samkvæmt atvikalýsingu drengsins var hann tekinn hálstaki sem skildi eftir sýnilega áverka.

Hilma segir að sonur sinn hafi einnig verið beittur ofbeldi í neyðarvistun eftir orðaskak við starfsmann.

„Það var eitt atvik sem Hávarður sagði mér frá. Hann var bara lítill hræddur strákur. Hann var ekki að ógna starfsmanninum á nokkurn hátt. Það var það eina sem varð til þess að þetta átti sér stað.“

Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur starfsmaðurinn sem hefur stöðu sakbornings verið færður til í starfi og vinnur nú hjá öðru meðferðarheimili hjá Barna og fjölskyldustofu. 

Hún segir atvikalýsingu ofbeldisins sem Hávarður hafi orðið fyrir vera sambærilega því máli og kom upp í lok júní. 

„Aðferðin er sú sama. Hann snýr hann niður og þar er mar á höndum og mar á hálsi eftir átök. Mér finnst bara galið að einstaklingur sem hefur greinilega þörf fyrir að sýna einhver völd þegar það kemur að börnunum fái bara að starfa með börnum. Þessi starfsmaður sem um ræðir er búinn að vinna þarna í fjölmörg ár. Það hefur sýnt sig að það hefur ekkert breyst. Hann beitir alltaf sömu aðferðum og kemur eins fram við börnin og er með þessa valdníðslu.“

Hún segir engar afleiðingar hafa verið á þeim tíma sem sonur hennar hafi orðið fyrir árás. 

„Ég er nokkuð viss um það að það væru ekki neinar afleiðingar eða nokkuð að eiga sér stað í sambandi við þetta nýja mál ef það hefði ekki verið þessi bruni,“ segir hún og vísar til eldsvoðans á Stuðlum þar sem einn drengur lést. Það mál er enn til rannsóknar. 

„Það er þar sem að umræðan um Stuðla byrjar.“

Hún tekur fram að alls ekki sé við starfsfólk Stuðla að sakast. 

„Ég upplifi það að allir séu að gera sitt besta í ömurlegum kringumstæðum. Ég hef mætt kærleika og elskhug frá flestu starfsfólkinu og ég get ekki sett út á starfsfólk eða einhvern einstakling fyrir utan þennan neina. Það sem ég tel að þurfi að gera er að ákveðnir einstaklingar sem eru yfir þurfa að segja af sér og það þurfa aðrir að taka við.

Hún bætir við:

„Ég skil meira að segja ekki af hverju þeir vilja vera í þessari stöðu þegar að umræðan er svona ótrúlega neikvæð í garð þeirra. Umræðan er bara mjög neikvæð. Það hlýtur að vera niðurbrjótandi. Ég hugsa að ef ég væri í þessari stöðu þá væri ég búin að segja af mér. Ég væri farin að hugsa að það hlýtur að vera að ég hafi gert eitthvað rangt.“

„Kærleiksríkur með risastórt hjarta“

Hún segir sonarmissinn ólýsandi.

„Hann var ótrúlega kærleiksríkur með risastórt hjarta. Hann mátti ekkert aumt sjá. Ekki neitt. Hann var ótrúlega góður við allt og alla. Í einum rapptextanum sínum rappar hann um hvað einelti er ljótt. Og þú veist hvað allir eigi að vera góðir við alla. Hann var ótrúlega góður stóri bróðir þegar hann var í lagi og hann var góður sonur. Hann var kærleiksríkasti strákur sem ég veit um.“

Hávarður hafi sjálfur verið hræddur við að deyja og glímt við ýmsar ranghugmyndir á síðustu mánuðunum.

„Í mínu tilfelli upplifi ég enga reiði. Ég veit að hann átti ekki meira inni. Hann gat ekki meir. Hann sá enga aðra leið út. Þess vegna ætla ég að halda áfram að tala um hann. Fólk þarf að sjá raunveruleikann.“

Hún segist mjög þakklát fyrir það góða stuðningsnet sem hún hefur í kringum sig.

Úrræðaleysi eftir átján ára aldur

Í þessum mánuði létust fjórir karlmenn á um tíu daga tímabili eftir baráttu við fíknivanda. Tveir þeirra voru átján og 21 árs. Hilma segir um viðkvæman aldur að ræða og kallar eftir úrræðum sérstaklega fyrir þá sem eru nýskriðnir á fullorðinsaldurinn.

„Þetta eru bara börn enn þá og þetta er rosalega viðkvæmur hópur. Þessi hópur á ekki heima heldur inni á gistiskýlinu. Það er ekki staður fyrir börn og bara opið frá fimm á daginn og til tíu daginn eftir. Mér finnst að það þurfi langtímameðferð fyrir þennan hóp en einnig skaðaminnkandi úrræði þar sem þessir einstaklingar geta komið og það er opið allan sólarhringinn. þar sem þau geta sofið, fengið að borða og verið í öruggu skjóli. Þar sem þau geta ekki verið að nota inni á staðnum en geta komið undir áhrifum. Þó að þau séu ekki tilbúin að hætta vegna aldurs þá þurfa þau að geta komið í skjól og vera með öryggi og í kringum starfsmenn sem mæta þeim af kærleika og umhyggju en ekki eins og þau séu skítur undir skónum.“ 

Hún tekur fram að alls konar hlutir eigi sér stað inni á gistiskýlunum og ekki æskilegt fyrir ungt fólk að vera þar inni. 

Sem dæmi nefnir hún hvernig ástandið var hjá Hávarði eftir að hann náði átján ára aldri. Hann treysti sér ekki í gistiskýli eftir slæma reynslu þar.

„Það er bara barátta við að reyna halda honum á lífi. Það er ekkert sem grípur. Ég og pabbi hans vorum með svo mikinn kvíða fyrir því að hann yrði átján ára. Því þá vissum við að ekkert myndi grípa hann. Börnin manns eru alltaf börnin manns sama hvort þau séu átján eða 30 ára. Það fór allt niður á við á þessum tíma. Óttinn þegar hann var úti og var að fá sér var hræðilegur.“ 

Hávarður hafi farið hraðbyr niður á við eftir átján ára aldur í andlegri heilsu og neyslu.

„Ég gerði mitt besta til að vera til staðar fyrir hann. Ég ætlaði ekki að lifa með því að hafa ekki reynt allt sem í mínu valdi stóð. Síðastliðið ár áður en hann lést var hann meira en minna í geðrofi. Hann fellur á milli í kerfinu.“

Hún segist líka hafa slæma reynslu af Vogi þar sem syni hennar var vísað út eftir átján ára aldur. Honum hafi þá verið skutlað heim af lögreglunni. 

„Ef hann hefði verið með ógnandi tilburði eða hættulegur hefði lögreglan aldrei hringt í mig og spurt hvort hún mætti koma með hann til mín. Þau hefðu farið með hann beint inn í klefa. Það segir mér það að það hafi ekki verið farið rétt að málunum.“

„Erum við með refsistefnu í þessum meðferðarúrræðum? Mér finnst alltaf verið svo mikið að refsa.“

„Horft á mann eins og ég veit ekki hvað“

Hilma vonast nú til að nýta rödd sína og reynslu til að kalla eftir breytingum í kerfinu.

„Þessi málaflokkur hefur verið undir og það þarf að endurskoða þetta allt. Ég hef kannski ekki mikil völd en ég hef rödd og ég veit að það er ekkert auðvelt að koma og ræða þessi mál eftir það sem ég hef gengið í gegnum. Ég finn svo mikið að ég verð að gera þetta. Það eru svo margir sem hafa ekki rödd og hafa ekki styrkinn í að nýta röddina sína sem er fullkomlega eðlilegt.“

Hún hvetur þá sem hafa upplifun af kerfinu til að segja sína sögu og aðra til að hlusta. Hún telur of mikla fordóma bæði gagnvart fíknisjúkum og aðstandendum í við lýði í samfélaginu.

„Samt sem áður með umræðunni, fyrir mitt leyti, þá finnst mér verða ákveðnar hugarfarsbreytingar. Umræðan er að eiga sér stað og er enn í gangi. Ég upplifði líka þegar ég var að fara með minn niður á bráðamóttöku, bara augnaráðin sem maður fékk. Þetta var ekki gott. Maður var að koma þarna í sínu mesta vanmætti með barnið sitt fárveikt og það er horft á mann eins og ég veit ekki hvað. Síðan er fullt af góðu starfsfólki sem er að reyna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×