„Þessir gikkskjálftar svokallaðir, sem eru þá ekki tengdir óróasvæðinu, eru margir hverjir að koma hérna, ekki kílómetra frá okkur, frá suðurenda Kleifarvatns. Mjög stórir,“ sagði Óskar Sævarsson, landvörður í Reykjanesfólkvangi, þegar fréttastofa ræddi við hann um miðjan dag í gær.
Það var vel að merkja áður en eldgos hófst í Litla-Hrúti síðdegis í gær.
Fyrir hálfum mánuði hafi skjálfti í kringum 4,5 að stærð riðið yfir.
„Þá hrukku allar frárennslislagnir hér í sambandi við þessi klósett hér í Seltúni. Það fór allt í sundur og skemmdist. Þetta er reyndar í fjórða skipti sem við gerum þetta á fimmtán árum, að laga til eftir jarðskjálfta.“
Viðgerðir hafi þó gengið vel. Sem sé eins gott, því um sé að ræða eina af fáum salernisaðstöðum fyrir ferðamenn á stóru svæði.
„En jörðin hérna gengur bara eins og alda á sjó. Þetta er bara leir hérna undir. Þetta eru svona tvö, þrjú fet af gróðurþekju, og svo er bara leir, mjög þéttur leir, sem er eiginlega bara eins og steypa.
Ferðamenn forðast svæðið
Minna sé af ferðamönnum á svæðinu en áður. Á venjulegum degi í júlí megi búast við allt að 300 manns á klukkutíma.
„Núna er bara brotabrot af því sem ætti að vera. Ég er svona að tengja það þessu kerfi Almannavarna og lögreglustjóra, að senda aðvaranir og upplýsa fólk. Því það er ekkert gáfulegt að vera á hér á ferðinni í þessum látum. Fólk hefur verið alveg felmtri slegið, komið hlaupandi niður úr fjöllunum. Það segir sig sjálft að það er bara hættulegt að vera þarna uppi,“ segir Óskar.

Mikið hafi verið um grjóthrun upp á síðkastið. Jarðskjálftinn sem reið yfir á sunnudagskvöld, sem var 5,2 að stærð, virðist þó hafa haft takmörkuð áhrif.
„Það fyrsta sem ég gerði þegar ég kom hérna í dag var að athuga hvort lagnirnar hefðu enn einu sinni hrokkið í sundur, því það er kvöð margra landvarða að hafa salernismálin í lagi, svona fjarri þéttbýlissvæðum.“
Og þær hafa sloppið núna?
„Þær hafa sloppið, já. Í þetta sinn.“