Skoðun

Hvernig er þín hamingja?

Hrund Apríl Guðmundsdóttir skrifar

Alþjóðlegi dagur hamingjunnar er 20. mars, en þennan dag hafa Sameinuðu þjóðirnar tileinkað hamingjunni, með það að markmiði að beina sjónum að mikilvægi hamingju fólks um allan heim. Með því að veita hamingjunni sérstaka athygli vilja Sameinuðu þjóðirnar jafnframt kalla eftir því að þjóðir heims leitist við að beita réttlátri nálgun í hagvexti sem stuðlar að hamingju og vellíðan allra þjóða.

Árlega gefa Sameinuðu þjóðirnar út „World Happiness Report“ eða heimshamingju skýrslu á þessum degi þar sem fjallað er um hvernig hamingja þrífst og dafnar um víða veröld. Hamingjan er hreyfiafl í samfélaginu sem byrjar hjá einstaklingnum þó svo ytri aðstæður hafi vissulega einhver áhrif þar á, eins og öruggt og réttlátt samfélag. 

Við skiljum hamingjuna hver á sinn hátt, en það er veigamikið fyrir velferð okkar og vellíðan að bera kennsl á það hvernig okkar eigin hamingja er. Fyrir einhverja er hamingjan það að hvíla sáttur í eigin skinni eða búa yfir jafnvægi og hugarró í öldugangi lífsins. Hamingja nágrannans lítur kannski allt öðruvísi út þar sem það eru jákvæð tengsl, hreyfing, að fræðast eða upplifa sem er hans hamingja eða eitthvað allt annað? En lukkan er að þekkja sína eigin hamingju og velta því fyrir sér hvernig á að halda henni við, hvernig þarf að hlúa að henni, hvar vex hún best og fyrir hverju er hún viðkvæm. Þessi dagur er tilvalinn til að skoða hvernig eigin hamingja lítur út, ná á henni taki og ekki sleppa, sama hvað.H

Höfundur er formaður félags um jákvæða sálfræði.




Skoðun

Sjá meira


×