Skoðun

Við­skipta­frelsi og hátækniiðnaður

Eggert Sigurbergsson skrifar

EES-samningurinn var gagnlegur á sínum tíma, en hann er orðinn fjötrar sem halda aftur af nýjum veruleika í hátækniiðnaði.

Umræðan á Íslandi um Evrópumál hefur um árabil snúist um ávinning EES-samningsins. Hann var grundvöllur efnahagslegs stöðugleika en efnahagslífið hefur tekið stakkaskiptum þar sem heimurinn er að taka enn eitt stökkið fram á við á sviði gervigreindar (AI), stafrænna viðskipta og grænnar tækni. EES-samningurinn hefur breyst úr ávinningi í fjötra sem hindra efnahagslegan vöxt og sjálfstæða stefnumótun.

Nú er kominn tími til að stíga djarft skref, segja upp EES-samningnum og skapa lagalegt sjálfstæði til að nýta grænu orkuna okkar í nýjum hátækniiðnaði. Úrsögn úr EES þýðir ekki einangrun eða rof á mikilvægu samstarfi. Fríverslunarsamningurinn frá 1972 heldur gildi sínu óbreyttu og tryggir áfram tollfrelsi á flestum íslenskum iðnaðarvörum til Evrópu. Samningar Norðurlandanna um gagnkvæm réttindi varðandi nám og vinnu halda gildi sínu, sem tryggir Íslendingum áfram greiðan aðgang að námi og starfi á Norðurlöndunum. Þetta dregur verulega úr þeirri óvissu og kostnaði sem getur fylgt úrsögn, og sýnir fram á að Ísland hefur sterkan lagalegan grunn til að standa á.

Strax við úrsögn er mikilvægasta pólitíska og lagalega aðgerðin sú að Alþingi samþykkti lög sem tryggja að allar EES-gerðir sem þegar hafa verið innleiddar í íslenskt regluverk haldi gildi sínu, þar til Alþingi ákveður annað. Þetta þýðir að úrsögn skapar ekki neitt lagalegt tómarúm. Öll lög um banka, fjármál, öryggi, staðla og neytendavernd halda gildi sínu. Frjálst Ísland getur ákveðið að taka upp reglugerðir ESB ef það þjónar íslenskum hagsmunum, en þarf ekki að gera það nauðugt undir hótunum um lögsókn. Við getum valið að taka upp þau lög sem auka stöðugleika og hafna þeim sem draga úr samkeppnishæfni.

Lagalegt sjálfstæði er nauðsynlegt vegna þess að ESB-regluverkið er orðið dragbítur fyrir þá atvinnugrein sem skiptir mestu máli. Við erum að missa af gríðarlegum tekjum vegna þess að við erum bundin af GDPR og AI Act. Þessi lög eru flókin, dýr í fylgni og hamla þróun. Fyrirtæki í Bandaríkjunum, sem eru leiðandi í gervigreind, sjá sér ekki fært að starfa á Íslandi þar sem lagaramminn er óhagstæður, ólíkt því sem gerist í frjálsum ríkjum utan EES. Við erum þannig niðurnjörfuð eftir geðþótta ESB og látin sitja eftir í gervigreindarkapphlaupinu.

Með lagalegu frelsi getur Ísland stefnt á nýjar slóðir velferðar. Við getum sett eigin lög um gervigreind sem eru sniðin að íslenskum veruleika og laða að erlenda fjárfesta með frjálsum gagnastraumum og traustri hugverkavernd (IPR). Frjálst Ísland getur gert fríverslunarsamninga við Bandaríkin sem fella niður refsitolla á sjávarafurðum okkar og tryggja fjárfestingavernd í gervigreindargeiranum. Við getum tekið þátt í velmegun hátæknisamfélaga án þess að vera niðurnjörfuð af geðþótta ESB.

Að segja upp EES er ekki skref aftur á bak í einangrun, heldur lagaleg forsenda fyrir aukinni velmegun til framtíðar. Með því að tryggja að núverandi lög haldi gildi sínu og treysta á gömlu samningana, getur Ísland tekið forræði yfir eigin lagasetningu og tryggt hagsmuni og velferð þjóðarinnar í nýju tæknisamfélagi til framtíðar.

Höfundur lærði viðskipta- og sjávarútvegsfræði við Háskólann á Akureyri.




Skoðun

Skoðun

Jóla­kötturinn, ert það þú?

Aldís Amah Hamilton,Hulda Jónsdóttir Tölgyes,Klara Ósk Elíasdóttir,Ragnheiður Gröndal,Rósa Líf Darradóttir,Valgerður Árnadóttir skrifar

Sjá meira


×