Í fréttum Stöðvar 2 var sýnt frá því þegar norska frystiskipið Silver Copenhagen kom til Kokura í Japan í gær eftir sjö vikna siglingu frá Íslandi.

Fulltrúar hvalverndarsamtakanna Whale and Dolphin Conservation og systursamtaka þeirra í Japan, Life Investigation Agency, fylgdust með skipinu leggjast að bryggju og tóku myndir af því þegar farminum var skipað í land.
Samkvæmt útflutningstölum Hagstofu Íslands voru þetta tæp 2.600 tonn að verðmæti um 2,8 milljarðar króna. Þetta er fyrsta hvalkjötið sem flutt er frá Íslandi í fjögur ár og jafnframt mesta magn hvalaafurða sem flutt hefur verið út í 35 ár.

Hvalverndarsamtökin sendu jafnframt frá sér yfirlýsingu þar sem þau fullyrða að nánast engin eftirspurn sé eftir hvalkjöti í Japan og óseldar birgðir hafi farið í hundamat. Segja þau japanska hvalveiðiiðnaðinn reyna að auka eftirspurnina með því að þrýsta kjötinu í skólamötuneyti og selja það ódýrt í matarsjálfsölum.

Þess má geta að borgin Kokura, á milli Nagasaki og Hiroshima, tengdist einnig kjarnorkuárásum Bandaríkjahers í lok síðari heimsstyrjaldar. Kokura var nefnilega aðalskotmarkið í seinni árásinni en slæmt skyggni varð til þess að áhöfn B-29 sprengjuflugvélarinnar valdi varaskotmarkið Nagasaki á síðustu stundu.

Áður hafði áhöfn könnunarflugvélar sem fór á undan sagt skyggnið nægilega gott yfir Kokura. Starfsmenn stáliðjuvers í borginni, sem óttuðust að hún yrði næst í röðinni á eftir Hiroshima, brenndu hins vegar kolatjöru til að hylja borgina með svörtum reyk. Fyrir vikið sá áhöfn sprengjuflugvélarinnar ekki skotmarkið, sneri frá og sleppti sprengjunni í staðinn yfir Nagasaki.
Kokura, sem núna heitir raunar Kitakyushu eftir sameiningu sveitarfélaga, var jafnframt varaskotmark fyrir Hiroshima. Í Japan tala menn því um lán Kokura, að hafa tvívegis sloppið undan kjarnorkuárás.

Svo vill til að íslenskt kvikmyndatökulið með leikstjórann Baltasar Kormák í fararbroddi er einnig statt á sömu slóðum við tökur á myndinni Snertingu, með Egil Ólafsson í aðalhlutverki, og var sjötugum Agli fagnað með óvæntri afmælisveislu í Hiroshima í dag.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2:
Hér má nánar fræðast um flutning hvalkjötsins frá Íslandi til Japans: